Sindri Þór Stefáns­son, sem á­kærður er í svo­kölluðu gagna­vers­máli, er laus úr far­banni gegn tryggingu. Það stað­festir Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, hjá lög­reglunni á Suður­nesjum, í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Gefin var út á­kæra á hendur Sindra og meintum sam­verka­mönnum hans í júlí í tengslum við stór­felldan þjófnað á 600 tölvum, að and­virði 200 milljónum króna, úr gagna­verum á Reykja­nesi í desember og janúar. 

Ekkert hefur spurst til tölvu­búnaðarins síðan þá en málið tók ó­vænta stefnu í apríl þegar Sindri Þór flúði fangelsið að Sogni til Amsterdam, með við­komu í Sví­þjóð. Deilur voru uppi um hvort Sindri væri í raun í gæslu­varð­haldi á þeim tíma, en úr­skurður þess efnis var ekki í gildi þar sem varð­haldið hafði runnið út. 

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæsta­réttar­dómari var til að mynda þeirrar skoðunar að Sindri hefði verið frjáls ferða sinna.

Með fjölskyldunni á Spáni

Sindri, á­samt tveimur öðrum sem á­kærðir eru í málinu, var síðan úr­skurðaður í átta vikna far­bann í lok ágúst en gildi þess átti að vera til 26. októ­ber næst­komandi. Sindri greiddi hins vegar fyrir lausn úr far­banninu gegn tryggingu en hann er sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins staddur á Spáni á­samt fjöl­skyldu sinni. 

Ekki hafa fengist upp­lýsingar um upp­hæð tryggingarinnar sem Sindri greiddi fyrir, en sjald­gæft er að þeir sem úr­skurðaðir eru í far­bann greiði fyrir að losna undan því. Sam­kvæmt heimildum blaðsins getur sú lausn kostað allt frá einni milljón og upp í rúm­lega þrjár milljónir króna.