Sindri Þór Sigríðarson Hilmarsson er einn þeirra fimm sem Ingólfur Þórarinsson, Ingó veðurguð, hefur kært vegna meintra ærumeiðandi ummæla á internetinu. Hann ætlar ekki að biðjast afsökunar á neinu og ætlar ekki að borga Ingó krónu.

„Ég er hræddur um að Ingólfur verði að bæta sér upp auraleysið annars staðar en í mínum vösum. Hjá mér fær hann ekki krónu með gati. Komi það sem koma kann, ég mæti spenntur!“ segir Sindri í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni.

„Mér ofbauð algjörlega sú eitraða gerendameðvirkni sem þar logaði og sú staðreynd að gítargalmur poppara virðist mörgum meira virði en skelfilegar sögur tuga þolenda. Kannski ekki nema von þar sem þolendurnir eru, eftir því sem við best vitum, konur og samfélagið hefur lengi sett tilfinningar og ásýnd karla skör hærra en líf og heilsu kvenna,“ skrifar Sindri um ástæðu þess að hann tjáði sig um málið.

„Ég veit að ég get verið bölvaður ruddi. Gamall kraftlyftingagaur, boxari og þungarokkari sem lærði að rífa kjaft áður en ég lærði almennilega að tala. Það gleður mig því ómælanlega að nú þegar ég verð loksins látinn standa í dómssal vegna einhvers sem ég sagði þá er það eitthvað sem ég stend heilshugar við, í baráttu sem ég verð ævinlega stoltur af að hafa ljáð krafta mína og er hvergi nærri hættur.“