Símon Sigvaldason dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sem jafnan er kallaður Símon „grimmi“ af lögmönnum vegna hás sakfellingarhlutfalls, er metinn hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í hið lausa embætti dómara við Landsrétt.

Þrjú sóttu um stöðuna. Jón Finnbjörnsson, dómari við Landsrétt, var meðal þeirra. Hann er einn af þeim fjórum dómurum sem dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu tekur til, sem ekki hefur fengið nýja skipun við réttinn. Einnig sótti Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari um stöðuna.

Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn sinni um umsækjendur um skipun í embætti dómara við Landsrétt.

Jón með mestu reynsluna og Ragnheiður reyndust í stjórnsýslu

Var Jón talin standa fremstur umsækjenda hvað varðar reynslu af dómstörfum þar sem hann á að baki langan og fjölbreyttan dómaraferil sem dómari í 22 og hálft ár, þar af rúmt ár sem landsréttardómari. Símon var næstur, sem héraðsdómari í um 17 ár auk þess að hafa átt sæti í Hæstarétti í einstökum málum. Þar á eftir var Ragnheiður sem hefur gegnt embætti héraðsdómara í átta ár, aðallega við úrlausn einkamála. Jón var einnig talinn fremstur hvað varðar menntun.

Ragnheiður stóð fremst þegar borin var saman reynsla af lögmanns- og málflufningsstörfum en hún öðlaðist leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1996 og starfaði á lögmannsstofu frá 2010 til 2013. Ragnheiður er einnig reyndust í stjórnsýslustörfum og skipti þar mestu reynslu hennar á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í 13 ár.

Símon var reyndastur í kennslu á háskólastigi, þar sem hann var stundakennari við lagadeild HÍ frá 1994 til 2011. Símon hafði einnig mesta reynslu af stjórnun og reynslu af öðrum störfum sem nýtast dómaraefni. Einnig var hann talinn færari en hinir til að semja dóma. Ragnheiður og Símon stóðu fremst er varðar útgáfu greina og bóka.

Símon með fjölþætta reynslu

Niðurstaða dómnefndar var að umsækjendur hefðu allir öðlast þá lögfræðilegu þekkingu sem gera verður kröfu til um að landsréttardómari hafi til að bera.

Símon stóð fremst að mati nefndarinnar þar sem hann hafði mikla reynslu af dómstörfum, fjölþætta reynslu af stjórnsýslustörfum, hafði sinnt umtalsverðri kennslu og sýnt með störfum sínum sem dómari að hann hefði gott vald jafnt á einkamála- og sakamálaréttarfari.

Hægt er að lesa mat nefndarinnar í heild sinni hér.