Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson segist ekki vera par sáttur við þá „Þórðargleði“ sem hann telur hafa ríkt hefur meðal landsmanna eftir að fréttaflutningur hófst af Klaustursupptökunum. Í gær fór fram leiklestur á sviði Borgarleikhússins þar sem sex leikarar fóru með samtöl þingmannanna sex, sem sátu á sumbli á barnum Klaustur og fóru ófögrum orðum um þingmenn og aðra þjóðþekkta einstaklinga. 

Sigmar, sem alla jafnan er kallaður Simmi, fjallar um málið á Facebook þar sem hann gagnrýnir Borgarleikhúsið harðlega fyrir leiklesturinn. 

Vitlausir unglingar eða skepnur

Sigmar segir hann ömurlegt að hafa heyrt af samtölum hópsins á Klaustur í liðinni viku, en stíft hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum. Segist hann þekkja það af eigin skinni að fylgst sé með sér á opinberum vettvangi. 

„Ég er því algerlega meðvitaður um að framkoma skiptir máli. Samt hef ég margoft móðgað og sagt óviðeigandi brandara sem hafa komið í bakið á mér og ég þurft að biðjast afsökunar á síðar. Nú er ég á engan hátt að bera það saman við þessar samræður sem við sem þjóð neyddumst til að hlusta á í fréttum síðustu daga. Enn myndi sú framkoma mín þola upptöku og opinbera birtingu? Nei. Gæti ég horft framan í börnin mín og látið eins og ekkert sé? Nei,“ ritar Sigmar og spyr hvort hann eigi von á því að næst er hann segi eitthvað dónalegt, eða óviðeigandi, sé þá í lagi að taka það upp og birta í fjölmiðlum.

„[E]r einhver hér sem telur að þessir einstaklingar sem höguðu sér eins og vitlausir unglingar með minnimáttarkennd og töluðu eins og gúmmítöffara sem aldrei var boðið upp á skólaböllum, séu raunverulegar skepnur inn við beinið?“ Spyr Sigmar.

Gefur sér að flestir kannist við hjal líkt og á Klausturbar

„Ætlum við öll í alvöru að halda því fram að við höfum ekki verið á ættarmóti þar sem svona álíka tal hefur farið fram í fortjaldi eftir fimmtu rauðvínsbeljuna frá Palla frænda? Nú gef ég mér að all flestir kannist við það (nema þeir sem hafa aldrei verið í fortjaldapartýi). Enn það réttlætir ekki að Þingmenn komi svona fram á opinberum vettvangi, við erum öll sammála um það. Þetta er ekki boðlegt og ekki samboðið kjósendum,“ ritar Sigmar, sem telur að Þórðargleði landsmanna vegna málsins vera komin út fyrir öll siðferðismörk. 

„Það er eitt að krefjast faglegrar afsagnar að menn víkji til hliðar eða það sem mestu máli skiptir að kjósendur muni þetta þá í næstu kosningum ef að menn stíga ekki til hliðar. En það að lesa þessar upptökur upp í tímaröð undir fána lýðræðis og einhverskonar hlutverki leikhússins er eins og að horfa á fórnarlamb eineltis standa upp eftir baramíðar og sparka ítrekað í andlit gerandans. Það er ekkert í mínu siðferði sem einfaldlega réttlætir þetta.“

Punktur á eftir opinberri niðurlægingu þjóðar

Sigmar segir málið vera harmleik og minnir netverja á að Steingrímur J. Sigfússon, forseta Alþingis, hafi beðið þjóðina opinberlega  afsökunar vegna málsins í gær og segir afsökunina vera punktur á eftir opinberri niðurlægingu þjóðarinnar. Telur hann þar af leiðandi að Borgarleikhúsið og RÚV hafi gert mistök með leiklestrinum.

„Við sem horfðum á þetta til að svala forvitnisfýsn okkar og fá þetta lesið í eyrun á okkur til að geta làtið okkur líða vel með sjálf okkur, þó ekki væri nema í klukkustund, eigum að skammast okkar.  Þetta samtal átti ekkert erindi við þjóðina, þetta samtal átti og á klárlega erindi til Siðanefndar,“ ritar Sigmar.

Fyrirlítur upptökumanninn ef hann þáði greiðslu

„Þeir stjórnmálamenn sem munu nýta sér þetta með því að klína andlitum sínum á sjónvarpsskjái í von um að verða andlitsmynd hreinleikans frá og með deginum í dag fá vonandi bágt fyrir, enda er þetta mál sem á að vera fordæmisgefandi um framtíðar framkomu þingmanna, ekki tækifærispot annara.“

Sigmar áréttar að lokum að honum finnist upptökurnar hræðilegar og séu þingmönnum til lækkunar, sem og að þær eigi erindi til siðanefndar ekki til almennings. Þá segist hann geta réttlæt upptökur á veitingastað af öðrum borðum af opinbgerum starfsmönnum er tal þeirra gnælfa yfir salinn, enda ekki eins og menn hafi verið að fela umræðuna ef miðað er við upptökurnar. 

„Enn ég fyrirlít þann sem tók þetta upp ef hann þáði greiðslu fyrir og þá sem greiddu fyrir þetta (ef slík viðskipti fóru fram). Guð hjálpi samfélaginu okkar ef að Papparazzi verður starfsstétt hér á landi,“ ritar Sigmar.