Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Símans hefur krafist þess að fjölmiðlanefnd rannsaki birtingu fréttar Ríkisútvarpsins um Hafnartorg 1. október síðastliðinn. Í bréfi til nefndarinnar er farið fram á að hún rannsaki meint óeðlileg tengsl auglýsingasölu og fréttaflutnings. Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV segir að um heinan atvinnuróg sé að ræða. Í kvörtun Magnúsar sé að finna rakalausar dylgjur og hugarburð.

„Sjálfstæði fréttastofu RÚV gagnvart öðrum deildum fyrirtækisins er algert og engin dæmi þess að eldveggurinn milli fréttastofu og auglýsingadeildar hafi verið rofinn,“ er haft eftir Rakel á vef RÚV.

Í bréfinu sakar Magnús RÚV um að birta duldar auglýsingar. Skömmu áður en fréttin birtist hafi Hafnartorg látið framleiða 63 sekúndna auglýsingu og leitað tilboða hjá ljósvakamiðlum um birtingu „og hvað væri hægt að gera "alveg út af kortinu" fyrir svo langa auglýsingu. Síminn gerði tilboð í birtingar sem á endanum var ekki tekið þar sem við rekum ekki fréttastofu og ætlun auglýsenda væri að komast að í fréttum.“

Einnig segir í bréfinu að fréttin hafi verið óeðlilega löng, eða tæplega 3 mínútur og óvenjulega mikið í hana lagt. Hún hafi verið flutt einhliða og án gagnrýni. Þá er fundið að því að dróni hafi verið notaður við tökuna. „Að sjálfsögðu er ekki um að ræða beina sölu á birtingu innan fréttatíma en einhversstaðar hafa verið gerðir óformlegir samningar um liðlegheit hvort sem það var við auglýsingadeild eða almennatengla.“

Magnús vill að fjölmiðlanefnd geri húsleit hjá RÚV vegna málsins og hótar að fara með málið til annarra yfirvalda, vilji fjölmiðlanefnd ekkert aðhafast.

Rakel segir á RÚV að sjálfstæði fréttastofunnar sé algert og engin dæmi um að eldveggurinn milli fréttastofu og auglýsingadeildar hafi verið rofinn. „Fréttin sem vitnað er til og fullyrt er að ,,staðfesti“ óheppileg og ólögleg tengsl var unnin að frumkvæði fréttastofunnar og það staðfesta m.a. tölvupóstsamskipti fréttamanns. Þá er allt myndefni sem notað er í fréttinni tekið af myndatökumönnum fréttastofunnar með tækjabúnaði RÚV en þeir sem þekkja til vinnslu nútíma sjónvarpsfrétta vita að notkun dróna er orðin fastur liður í daglegri vinnslu og telst ekki lengur til tíðinda,“ er haft eftir Rakel.

Bréf Magnúsar: 
Ágæta fjölmiðlanefnd 
 
Með bréfi þessu er formlega óskað rannsóknar á óeðlilegum tengslum auglýsingasölu og fréttaflutnings hjá Ríkisútvarpinu sjónvarpi.   Ástæðan er birting "fréttar" um hafnartorg í aðalfréttatíma sjónvarps þann 1. október síðastliðinn. Fréttatímann má finna í heild sinni á vef Ríkisútvarpsins en fréttin um Hafnartorg hefst á mínútu 13:57. Slóðin er þessi: 
 
http://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/23879?ep=7gbur2 
 
Forsaga málsins er að Hafnartorg lét framleiða 63 sek. langa sjónvarpsauglýsingu og leitaði í um miðjan september tilboða hjá ljósvakamiðlum um birtingu og hvað væri hægt að gera "alveg út af kortinu" fyrir svo langa auglýsingu. Síminn gerði tilboð í birtingar sem á endanum var ekki tekið þar sem við rekum ekki fréttastofu og ætlun auglýsenda væri að komast að í fréttum. 
 
Skömmu síðar hófust birtingar auglýsinga hjá Ríkisútvarpinu sjónvarpi og í kjölfarið er birt hin ótrúlega frétt í aðalfréttatíma. Það sem gerir fréttina einstaka er m.a. eftirfarandi: 
 
 
*   Birting er í kjölfar þess að keyptur er birtingarpakki hjá Ríkisútvarpinu   *   Innihald fréttarinnar er í ætt þess sem á ensku er kallað "infomercial". Algerlega einhliða og án nokkurrar gagnrýni  
  *   Lesnar eru upp jákvæðar tölur og staðreyndir sem augljóslega koma úr fréttatilkynningu  
*   Viðmælendur eru annarsvegar sölustjóri ÞG Verk og hinsvegar forstöðumaður markaðsmála hjá Reginn  
*   Fréttin er ótrúlega löng miðað við annað efni í fréttatímanum, alls 2:55  
*   Mikil vinna er lögð í gerð fréttarinnar og myndavél stillt upp alls 23 sinnum á jörðu niðri auk þess að 7 myndskeið eru tekin með dróna. Almennt eru fréttamenn sem fara á vettvang ekki vopnaðir flygildum og því vel mögulegt að uppruni þessara myndskeiða sé hjá auglýsendum sjálfum. Slíkt væri grafalvarlegt 
 
Þessi "frétt" staðfestir í eitt skipti fyrir öll óheppileg og reyndar ólögleg tengsl auglýsingasölu og dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu. Að sjálfsögðu er ekki um að ræða beina sölu á birtingu innan fréttatíma en einhversstaðar hafa verið gerðir óformlegir samningar um liðlegheit hvort sem það var við auglýsingadeild eða almennatengla. Ríkisútvarpið mun að sjálfsögðu neita sök í málinu og því er húsleit þar sem skoðuð eru tölvugögn auglýsingasölu eina rannsóknaraðferðin sem er líkleg til að skila óyggjandi niðurstöðu. Ef fjölmiðlanefnd treystir sér ekki til að rannsaka málið óskar undirritaður upplýsinga þar um og mun þá leita til annara yfirvalda. 

Það er sorglegt þegar ríkisstofnun sem er fjármögnuð með á fimmta milljarð af skattfé skipar sjálfri sér á bekk með bloggurum á trendnet og birtir neytendum duldar auglýsingar. Munurinn á bloggurunum og ríkisstofnuninni er þó sá að brot ríkisins er margfalt alvarlegra.  Annar munur er sá að yfirvöld gripu hratt í taumana og Neytendastofa var harðorð í úrskurðum sínum.  Ríkisútvarpið fær ávallt lygnan sjó þrátt fyrir fjölda ábendinga um ólögmæta starfsemi þeirra en fjölmiðlanefnd hefur þess í stað kosið að verja tíma sínum í smástöðvar á borð við Hringbraut. 
 
Að lokum tvennt. Í fyrsta lagi er það þreytandi starf að keppa við ríkisstofnun á samkeppnismarkaði. Enginn vafi leikur á lögbrotum Ríkisútvarpsins en samt starfar það áfram óáreitt í skjóli eftirlitsaðila. Sérhver kvörtun sem samkeppnisaðilar leggja fram kostar óvild auglýsenda. Þannig munu hvorki ÞG verk né Reginn vera mér þakklát fyrir þessa umkvörtun en það skal tekið fram að auðvitað er ekkert við þessa aðila að sakast. Í öðru lagi þá er rétt að fjölmiðlanefnd viti að mjög hægði á samkeppnisbrotum Ríkisútvarpsins í kjölfar umræðu í kringum HM í sumar. Nú er hinsvegar komið haust og stærsta auglýsingasöludeild landsins virðist öllu hafa gleymt og er aftur komin í sama gamla farið eins og ofangreint ber vitni. 
 
Virðingarfyllst Magnús Ragnarsson Síminn 
 
Kveðja/Regards 
 
Magnús Ragnarsson Framkvæmdastjóri sölusviðs / VP Sales