Spænska ríkis­stjórnin segir síma spænska for­sætis­ráð­herrans, Pedro Sánchez, og varnar­mála­ráð­herrans, Margarita Robles, hafa verið hleraða í fyrra. The Guar­dian greinir frá þessu.

Félix Bolaños, ráð­herra í spænsku ríkis­stjórninni sagði frá þessu á blaða­manna­fundi. Hann segir síma Sánchez hafa verið hleraðan frá maí til júní 2021 og sími Robles var hleraður í júní. Gögnum var stolið af báðum símum.

Ekki er vitað hver hleraði símana en hlerunar­búnaðurinn sem var notaður er sagður hafa verið frá er­lendum aðilum, slíkur njósna­búnaður er einungis að­gengi­legur ríkis­stofnunum.

Málið er strax komið til rann­sóknar hjá æðsta dóm­stól Spánar, Audi­encia Na­cional. Bolaños segir að yfir­völd hefðu vitað ef hlerunar­búnaðinn ætti að nota, en það þarf sam­þykki dóms­mála­yfir­valda fyrir notkun búnaðarins.