Þjóðkirkjan reynir eftir bestu getu að halda úti sálgæslu og helgihaldi í samkomubanni, en vitaskuld með breyttu sniði. Helgistundum er nú streymt í gegnum netið og flestum athöfnum hefur verið frestað.Sameiginlegt verkefni kirkjunnar er streymi á Vísi klukkan 17 á sunnudögum, sem skipt er á milli kirkna og kallast heimahelgi­stund. Í Laugarneskirkju síðasta sunnudag, Lindakirkju næsta og Vídalínskirkju þar á eftir. Þá hafa einstaka kirkjur tekið upp á því að streyma til dæmis ritningarlestrum og bænastundum.Frá síðasta sunnudegi var ákveðið að hringja kirkjuklukkunum í hverju hádegi. Í kjölfarið er sameiginleg bænastund í öllum kirkjum og beðið fyrir landi og þjóð.

Pétur Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, segir að vel sé tekið í þetta starf og sýni vel að þjóðin hafi þörf á að „kjarna sig“ andlega á tímum sem þessum. Aðspurður hvort innileikinn haldi sér segir hann það vissulega hafa verið áskorun.„Maður er manns gaman og innileikinn kemur þegar við erum í nánd við hvert annað,“ segir hann. „Við þurfum því að búa þetta til og það hefur tekist vel. En við vitum að við erum í tímabundnu ástandi.

„Kirkjur landsins sinna miklu eldriborgarastarfi dags daglega en vegna samkomubanns liggur það niðri. Samkvæmt Pétri setur þetta mikið skarð í félagslíf hóps, sem þar að auki er í mestri áhættu og margir eldri borgarar bangnir um sig og sína. Síminn stoppar ekki þessa dagana, hvorki hjá einstaka prestum né Biskupsstofu.„Fólk er mikið að velta fyrir sér skipulagningu útfara,“ segir Pétur. En útfarir verða að fara fram þrátt fyrir 20 manna samkomubann, ólíkt fermingum, giftingum og skírnum sem flestum hefur verið slegið á frest. Við útfarir geta því aðeins nánustu aðstandendur verið viðstaddir en Pétur segir að fólk sé að nýta sér netstreymi fyrir aðra.„Ég var staddur í Víðistaðakirkju í dag, þar sem var verið að jarða ungan mann, og við vorum að reyna að útfæra kistulagningu til að allra nánustu aðstandendur kæmust. Þetta er raunveruleiki kirkjunnar alla daga.“Vitjanir eru stór hluti af sálgæsluhlutverki kirkjunnar en reynt er að halda samneyti þessa dagana. Er fólki bent á Netkirkjuna, þar sem sé prestur á vakt og hægt sé að fá faglega sálgæslu.„Fyrsta skrefið er samtal í gegnum tölvuna og ef þörf er á í gegnum síma. Ef ástandið er mjög alvarlegt vitjum við fólks en viljum halda því í lágmarki,“ segir Pétur. „Það eru margir óttaslegnir og óvissir núna. Kirkjan kjarnar sig, ef svo má segja, í krefjandi aðstæðum, og sannar tilveru sína og hlutverk.“