Ungur maður segir farir sínar ekki sléttar eftir að hringt var í hann af öðrum manni og hann sakaður um að hafa verið að hringja rukkunarsímtöl.

Maðurinn þvertók fyrir að vera að hringja slík símtöl en símtölin komu öll úr símanúmerinu hans. Eftir stutta eftirgrennslan kom í ljós að óprúttnir aðilar hefðu verið að nota snjallsímaforrit til að breyta sínu símanúmeri í númerið hans. Þetta kemur fram í bréfi sem Fréttablaðið fékk sent en samkvæmt Theódóri Ragnari Gíslasyni, tæknistjóra hjá netöryggisfyrirtækinu Syndis, eru slík forrit þekkt fyrirbæri. Um svokallaðar spoofing-þjónustur sé að ræða, sem eru gagngert til að herma eftir símanúmerum annarra.

„Það er ekki búið að taka yfir símanúmerið, en síminn þinn heldur að þetta sé símanúmerið sem er að hringja í þig,“ segir Theodór og bætir við að forritin séu auðveld í notkun. „Þú nærð í snjallsímaforritið og velur símanúmerið sem þú vilt tengjast frá og vilt að birtist. Þú borgar kannski eitthvað gjald í hvert skipti sem þú gerir þetta. Þetta er ekki kostnaðarsamt og er einfalt í dag, því miður.“ Theódór segir þjónusturnar sem bjóða upp á þetta opinberar og keyrðar á .com-lénum.

Auðvelt er að nota forritin til að gera eitthvað ólöglegt, til dæmis að hóta einhverjum lífláti gegnum síma. „Þá er erfiðara að rekja símanúmerið þitt,“ segir Theodór.

Af ákvörðun Fjarskiptastofnunar frá árinu 2012 má draga þá ályktun að notkun slíkra forrita fari í bága við fyrirkomulag númerabirtingar samkvæmt 51. gr. fjarskiptalaga og reglugerð um númerabirtingar. Í þeim úrskurði stofnaði starfsmaður símafyrirtækis til símtals með númeri frá öðru símafyrirtæki, en stofnunin taldi óheimilt að nota röng auðkenni eða númer til að villa á sér heimildir.

Samkvæmt Guðmundi Jóhannssyni, upplýsingafulltrúa Símans, hefur þetta verið þekkt vandamál í nokkur ár en hefur oftast komið í hrinum. „Nú virðist sem einhver snjallsímaforrit eða vefsíður séu í tísku sem eru notuð til að gera símaat í grunlausu fólki. Þau munu svo detta úr tísku þangað til næsta forrit kemur,“ segir hann.

„Stundum nota óprúttnir aðilar líka þessa leið til að fá notendur til að svara símanum með því að hringja erlendis frá, en þykjast hringja í gegnum íslenskt númer sem mörgum finnst meira traustvekjandi en ef eitthvað erlent númer hringir óvænt í fólk,“ segir Guðmundur og bætir við að það sé erfitt að stöðva þetta í stafrænum heimi.

„Eftir að símtöl fóru að flæða úr gamla rásaskipta símakerfinu yfir í VoIP-kerfi sem er eðlileg tækniþróun fjarskiptakerfa, hefur erfiðleikastigið við að framkvæma svona falsanir snarlækkað. Þegar símtöl fóru í gegnum gamla kerfið var þetta tæknilega flókið og á færi fárra að gera. En í nýjum stafrænum heimi er þetta einfaldara, eiginlega of einfalt,“ segir Guðmundur.