Silverado EV er byggður á sömu grunnplötu og Hummer-rafjeppinn og mun nota sömu Ultium-rafhlöðuna. RST-útgáfan verður mjög öflug eða 664 hestöfl og fer í hundraðið á undir 4,5 sekúndum. Það er á pari við Ford F-150 Lightning og þriggja mótora Cybertruck Tesla. Um vel búinn bíl verður að ræða með fullt af flottum fídusum. Má þar nefna fjórhjólastýringu, loftpúðafjöðrun, rafstillanlegu miðrými sem getur stækkað pallinn, 17 tommu snertiskjá í miðjustokki, 14 tommu framrúðuskjá og margt fleira.

Skjárinn í miðjustokki er 17 tommur og 11 tommur fyrir framan ökumanninn en einnig verður framrúðuskjár af stærri gerðinni.

Bíllinn getur hlaðið á allt að 350 kW sem eru um 160 km á 10 mínútum þegar það er í boði. Hægt verður að fá allt að 10,2 kW frá rafhlöðu bílsins sem getur séð heilu heimili fyrir orku eða hlaðið annan rafbíl ef út í það er farið. Þetta er fjórum sinnum meira en í grunnútgáfu Ford F-150 Lightning en hægt er að fara uppí 9,6 kW í dýrari útgáfum. Bíllinn er þó ekki alveg að komast í framleiðslu eins og Fordinn, en fyrstu Silverado EV-bílarnir munu koma af færibandinu vorið 2023.