Silja Dögg Gunnarsdóttir var í dag formlega kjörin í embætti forseta Norðurlandaráðs á næsta ári þegar Ísland fer með formennsku í ráðinu. Silja Dögg hefur setið á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn frá árinu 2013.

Þingi Norðurlandaráðs lauk í Stokkhólmi í dag en næsta þing mun fara fram í Reykjavík. Silja Dögg kynnti á þinginu í dag formennskuáætlun Íslands fyrir næsta ár. Þar er lögð áhersla á að standa vörð um lýðræðið, líffræðilegan fjölbreytileika og efla tungumálakunnáttu á Norðurlöndum.

„Við leggjum mikla áherslu á líffræðilegan fjölbreytileika, einkum á það að virkja ungt fólk á Norðurlöndum í starfi á því sviði og einnig á líffræðilegan fjölbreytileika hafsins. Með hliðsjón af ástandinu í loftslagsmálum er þetta afar mikilvægt starf,“ segir Silja Dögg.

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var kjörin varaforseti ráðsins fyrir næsta ár.

Hér má sjá formennskuáætlun Íslands 2020.