Vegna fréttar í blaðinu síðastliðinn föstudag um tölvupósta milli framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar og þriggja starfsmanna Samherja á árinu 2014 skal áréttað að ekki var átt við að það hafi verið Síldarvinnslan eða samstarfsmaður og -félög fyrirtækisins á Grænlandi sem hafi áformað að blekkja þarlend stjórnvöld til að ná til sín aflaheimildum með því að þykjast ætla í uppbyggingu á Austur-Grænlandi.

Eins og fram kom í tilvitnuðum tölvupósti framkvæmdastjórans í fréttinni átti þetta við um aðra aðila. Sagði í póstinum frá því að það hafi verið „einhverjir heimamenn í Grænlandi með einhverja með sér í því að reyna ná kvótum og goodwill af stjórnvöldum með því að þykjast vera fara byggja upp á Austur Grænlandi“. Fréttablaðinu þykir miður hafi þetta misskilist.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, sagði við frettabladid.is að morgni föstudags að fyrrnefnd frétt blaðsins þann dag væri röng. Í yfirlýsingu síðar þann dag kvaðst Síldarvinnslan harma villandi og meiðandi málflutning sem birst hafi í fréttinni.

Samstarfsmaður Síldarvinnslunnar á Grænlandi, Henrik Leth, stjórnarformaður Polar Seafood, hefur nánar útskýrt málavexti í grænlenska blaðinu Sermitsiaq. Er haft eftir Leth að á þeim tíma hafi margir útlenskir aðilar með Grænlendinga sem leppa reynt að að ná aflaheimildum í vaxandi makrílveiðum Grænlendinga.

„Það var hellingur af svikahröppum í þessu ferli sem reyndu að fella ódýrar pólitískar keilur með því að halda fram að þeir myndu byggja fiskiverksmiðju í Tasiilaq,“ er vitnað til Leths í Sermitsiaq. „Þess vegna fórum við í að kanna hvað þyrfti eiginlega til að opna slíka verksmiðju.“

Leth útskýrir síðan í Sermitsiaq að þess vegna hafi verið haft samband við Síldarvinnsluna, samstarfsaðila Polar Seafood til margra ára. Síldarvinnslan hafi haft reynslu af því að byggja fiskverksmiðjur og því hafi verið nærtækt að afla upplýsinga frá fyrirtækinu um hvað þyrfti að fjárfesta í slíku verkefni.

„Þegar við höfðum kannað möguleikann á uppsetningu verksmiðju varð niðurstaðan sú að það væri ekki fjárhagslega hagkvæmt,“ segir Leth við Sermitsiaq.