Talsvert hefur borið á því að sílamávar valdi usla í Garðabæ með ágengni sinni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa fjölmargar kvartanir borist í þjónustuver bæjarins – bæði vegna loftárása fuglanna á gangandi vegfarendur, sem og tilkynningar um að að mávarnir spilli varpi annarra fugla með því éta ungviði þeirra. Þá eiga fuglarnir einnig til að valda óþægindum með driti.

Ástandið er sérstaklega slæmt í Sjálandshverfi en þar er ágangurinn talsverður. Meðal annars hafa íbúar á hjúkrunarheimilinu Ísafold orðið fyrir miklu ónæði vegna fuglanna.

Guðbjörg Brá Gísladóttir, verkefnastjóri hjá umhverfisnefnd Garðabæjar, staðfestir að sambýli manna og máva hafi gengið erfiðlega í bænum undanfarin misseri.

„Þetta hefur verið vandamál undanfarin ár, en eitthvað sem er erfitt fyrir okkur að bregðast við. Það eru stór varplönd sílamávs í grennd við nokkur hverfi bæjarins og þau eru friðuð,“ segir Guðbjörg.

Málið hafi verið unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun Íslands. Þar sem ekki megi grípa til aðgerða innan varplanda þá hafi aðgerðir bæjarins takmarkast við það að bæjarstarfsmenn hafi stungið á egg sílamáva utan hinna skilgreindu svæða.

Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor við líffræðideild Háskóla Íslands, segir sílamávi ekki hafa fjölgað undanfarin ár. Vandamálið með árekstra fuglanna við íbúa í Garðabæ sé ekki nýtt af nálinni og snúist fyrst og fremst um nálægð bæjarins við stór varpsvæði.

Að sögn Gunnars Þórs er skiljanlegt að fólki verði hverft við þegar fuglarnir láti til sín taka enda séu þeir engin smásmíði.

„Sílamávur ver einfaldlega varpið sitt eins og margir aðrir fuglar. Hann gerir það með talsverðum látum þó en það heyrir til undantekninga að þeir snerti fólk,“ segir Gunnar Þór. Hann bendir á að slíkt hafi sárasjaldan hent sig, þó að hann hafi um árabil starfað í grennd við varplönd sílamávs. „Ég hef meira að segja orðið fyrir árás skógarþrastar. Þetta atferli þekkist því hjá mörgum fuglategundum.“

Að hans sögn hafi sílamávar slæmt orð á sér og það sé vegna atferlis þess hluta stofnsins sem hefur aðlagast lífi í þéttbýli. Sílamávurinn sé sjófugl og fæðuöflun hans fari fyrst og fremst fram á hafi úti.

„Þetta eru tækifærissinnar og sumir sækja í það sem fellur til í þéttbýli og ungviði annarra fugla,“ segir Gunnar Þór. Að hans mati er ekki um alvarlegt vandamál að ræða, heldur sé mikilvægt að fólk taki tillit til fuglanna á meðan á varptíma þeirra standi.