Búlgarinn Aleksandar Antonov sem fékk flest stig í Fantasy-deild ensku Úrvalsdeildarinnar á heimsvísu hefur verið dæmdur úr leik. Hann fékk tilkynningu um það frá Úrvalsdeildinni í gær að aðgangi hans hefði verið eytt þar sem hann hefði brotið reglur leiksins.

Breski miðillinn The Guardian greinir frá því að ástæðan séu rasísk ummæli Antonov um leikmann sem talinn er vera Raheem Sterling. Ummælin eiga að hafa fallið í spjalli á netinu við vini sína.

Antonov segist í myndbandi sem var birt á youtube hafa sent Úrvalsdeildinni útskýringar á málinu. Hann segist ekki vera rasisti heldur hafi ummælin fallið vegna pirrings með frammistöðu viðkomandi leikmanns.

Hann segir að í þessu spjalli sé hann að grínast við vini sína um fótbolta. Það hafi ekki verið ætlunin að móðga leikmenn enda myndi hann aldrei segja slíka hluti beint við þá.

Brottvísun Antonov þýðir að Englendingurinn Joshua Bull hefur verið krýndur sigurvegari. Bull hlaut 2.557 stig en Antonov endaði með 2.575 stig en alls voru þátttakendur rúmlega 7,6 milljónir. Þess má geta að norski stórmeistarinn í skák, Magnus Carlsen, endaði í tíunda sæti en hann var um tíma efstur.

Bull, sem er stærðfræðingur og starfar við krabbameinsrannsóknir við Oxford háskóla, vildi ekki tjá sig við The Guardian um ástæður þess að Antonov hefði verið dæmdur úr leik.