Hönnunar­verð­launin 2019 voru af­hent við há­tíð­lega at­höfn í Iðnó síðast­liðið fimmtu­dags­kvöld. Genki Instru­ments hlaut aðal­verð­launin fyrir Wave-hringinn sem er hannaður til að auka upp­lifun og túlkun í tón­list.

Hringurinn þykir fram­sækin tækni­lausn sem eykur mögu­leika tón­listar­manna til sköpunar á þægi­legan og not­enda­vænan hátt. Hringurinn er hannaður fyrir tón­listar­fólk og byggir á Bluet­oot­h­tækni.

Rosaleg viðurkenning

Teymið á bak við Genki er skipað þeim Ólafi Boga­syni, Haraldi Þóri Hugos­syni, Jóni Helga Hólm­geirs­syni og Daníel Grétars­syni. „Þetta er rosa­lega mikil viður­kenning fyrir okkur og okkar starf síðustu ár,“ segir Ólafur og segir Hönnunar­mið­stöð hafa stutt dyggi­lega við teymið síðustu ár.

„Þetta er hvatning til að halda á­fram að beita hönnunar­drifinni nálgun í því sem við erum að gera. Varan er komin á markað og við erum að breyta um takt núna. Höfum verið í þróunar­ferli síðustu fjögur ár. Nú erum við hins vegar að koma út markaðs­efni og ná til kúnnans. Finna út hvernig við mætum þeirra þörfum best með þessari vöru, fá endur­gjöf og halda á­fram að betr­um­bæta hug­búnaðinn. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Ólafur.

Veroni­ca Filippin tók á móti verð­launum fyrir hönd Omnom súkku­laði­gerðar sem hlaut viður­kenningu fyrir bestu fjár­festingu í hönnun.
Fréttablaðið/Ernir

Elskar vinnuna

„Ég fæ að starfa við það sem ég elska,“ segir Veroni­ca Filippin, grafískur hönnuður, sem tók á móti verð­launum fyrir hönd Omnom súkku­laði­gerðar sem hlaut viður­kenningu fyrir bestu fjár­festingu í hönnun 2019. Omnom fram­leiðir hand­gert súkku­laði og var stofnað af þeim Kjartani Gísla­syni og Óskari Þórðar­syni árið 2013.

Í um­sögn dóm­nefndar segir meðal annars: „Ferlið á bak við vör uþróu n er spennandi en Omnom hefur frá byrjun unnið með hönnuðum í öllu fram­leiðslu­ferlinu að heild­rænni vöru­upp­lifun, hvort sem það er súkku­laðið sjálft eða með vandaðri hönnun á um­búðum og fram­setningu í versl unum. Slík sam­vinna í öllu ferlinu er skýrt dæmi um hvernig hönnun getur haft af­gerandi á­hrif á vaxtar­sögu og vel­gengni fyrir­tækis.“

Eini hönnuður fyrirtækisins

Veroni­ca flutti hingað til lands frá Ítalíu fyrir fjórum árum með kærasta sínum, Fedorico Remondi ljós­myndara. „Ég hef starfað fyrir Omnom í þrjú ár og lagði hart að mér til að fá starfið. Ég er eini starfandi hönnuður fyrir­tækisins og hanna allt markaðs­efni, til dæmis um­búðir og standa í verslanir. Fyrir­tækið er lítið og vina­legt og hér ríkir fjöl­skyldu­andi,“ segir Veroni­ca sem segist á­nægð með lífið á Ís­landi þó vissu­lega sakni hún stundum sól­ríkra daga heima­landsins og fjöl­skyldu sinnar.

„Ég hef þó eignast vini hér á landi og starfið gefur mér mikið. Áður en ég kom til starfa hjá Omnon hafði ég ekki átt kost á að starfa sem hönnuður í heilt ár. Það var mjög erfitt, mér fannst ég hálf manneskja, viður­kenningin er því mikils virði.“