Það voru þau Hlynur Ólafsson og Katerina Kratochvilova Kriegelova frá Tékklandi sem unnu í 10 km hlaupinu sem er hluti af dagskrá Reykjavíkurmaraþonsins í dag, samkvæmt tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.

Hlynur Ólafsson kom í mark á tímanum 33:59.
MYND/Eva Björk Ægisdóttir

Hlynur kom fyrstur í mark á tímanum 33:59, en í öðru sæti lenti Þórólfur Ingi Þórsson á tímanum 34:08 og Rimvydas Alminas frá Litháen varð þriðji á tímanum 34:19, svo keppnin var jöfn. Í fimmta sæti lenti Vilhjálmur Þór Svansson á tímanum 35:04, en hann var þriðji íslenski karlinn í mark.

Katerina Kratochvilova Kriegelova kom í mark á tímanum 35:49.
MYND/Eva Björk Ægisdóttir

Katerina Kratochvilova Kriegelova kom í mark á tímanum 35:49. Fyrsta íslenska konan í mark var Elín Edda Sigurðardóttir, sem hljóp á tímanum 35:55. Arndís Ýr Hafþórsdóttir var í þriðja sæti, en hún hljóp á tímanum 37:19. Helga Margrét Þorsteinsdóttir var í fjórða sæti og þriðja íslenska konan í mark á tímanum 38:30.