Sigurður Ragnar Kristinsson hefur kosið að tjá sig ekki frekar í hinu svokallaða Skáksambandsmáli. Aðalmeðferð í Skáksambandsmálinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stundu. 

Þrír eru ákærðir fyrir fíkniefnainnflutning frá Spáni, Sigurður Ragnar Kristinsson, Hákon Örn Bergmann og Jóhann Axel Viðarsson. Sigurður Ragnar var talsvert í fréttum á síðasta ári en hann er fyrrverandi eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem slasaðist alvarlega þegar hún féll milli hæða á heimili þeirra á Malaga á Spáni fyrir tæpu ári. Sunna Elvira er ekki á vitnalista í dag. 

Fyrir dómi kvaðst Sigurður ekki vilja tjá sig frekar um málið, en staðfesti það sem hann hefur sagt í skýrslutöku. Sagðist hann hafa sagt satt og rétt frá í skýrslutöku hjá lögreglu og hefur engu við það bæta.  

„Ég kýs að tjá mig ekkki frekar,“ sagði Sigurður Ragnar fyrir dómi. Dómari spyr Sigurð hvort hann hafi kynnt sér öll gögn málsins, til að mynda það sem haft er eftir honum hjá lögreglu. „Ég hef farið í margar skýrslutökur og hef sagt rétt frá.“

Sjá einnig: Viðurkennir allt: Segist hafa sagt Sunnu frá dópinu

Sendu efnin til Skáksambandsins

Heiti málsins, Skáksambandsmálið, er til komið vegna þess að fíkniefnasendingin var merkt Skáksambandi Íslands. Þremenningunum er gefið að sök að hafa staðið að og tekið þátt í innflutningi á miklu magni fíkniefna hingað til lands frá Spáni. Um er að ræða tæplega kíló af fíkniefnum sem falin voru í skákmunum sem sendir voru til Skáksambands Íslands. 

Tveir hinna ákærðu hafa neitað sök, þar á meðal Sigurður Ragnar, en þriðji maðurinn játaði sök að hluta við þingfestingu málsins á síðasta ári. Kvaðst hann ekki hafa vitað að fíkniefni væru í sendingunni. Sigurður játaði þó aðild að málinu við yfirheyrslur hjá lögreglu.

Fréttablaðið greindi frá því í apríl á síðasta ári að sterkar líkur væru taldar á því að Sigurður hafi gegnt burðarhlutverki við innflutning á fimm kílóum af amfetamíni hingað til lands frá Spáni. 

Sjá einnig: Sigurður í fangelsi og gert að greiða 137 milljónir og Sigurður keypti fíkniefnin á Benidorm

Í samtali við lögreglu lýsti Sigurður því hvernig hann var á Benidorm á Spáni þar sem hann hafi kynnst mönnum frá Mið-Austurlöndum. seint í desembermánuði. Sunna Elvira Þorkelsdóttir, fyrrverandi eiginkona Sigurðar Ragnars, er ekki á vitnalista ákæruvaldsins en þau bjuggu saman á Spáni þegar meint smygl var undirbúið. Sunna var í farbanni á Spáni á fyrri hluta ársins vegna rannsóknar málsins en hún lá þá á spítala eftir að hafa fallið milli hæða á heimili sínu.