Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði á blaðamannafundi að það liggi ekki fyrir hver næstu skref eru, eftir afsögn Sigríðar Á. Andersen.

„Við höfum verið að tala saman um hvernig sé hægt að takast á við þessa óvissu og eyða henni. Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin sé samstillt í því,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við að það væri því skýrt fyrir honum og öðrum í Framsóknarflokknum að þau styðji við ákvörðun Sigríðar að stíga til hliðar.

Sigurður vildi ekki útiloka það að Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórnina en sagði að það fari eftir úrskurði efri deildar Mannréttindadómstóls Evrópu og hvaða niðurstöðu þau komast að. Eins og áður hefur verið greint frá ætlar íslenska ríkið að áfrýja málinu.

Spurður hvort hann ætti von á því að það yrði boðað til ríkisráðsfundar í dag eða á morgun sagðist hann eiga von á því. Hann þorði ekki að fullyrða um að fundurinn yrði í dag.

„Ég tel að þessi ákvörðun hennar sé málinu í heild til góða. Hún stígur til hliðar til að tryggja þriðja stig ríkisvaldsins, dómsvaldsins, að það sé enginn vafi um það hvað við erum að gera það og ég tel það gott,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.