Sterkar líkur eru taldar á að Sigurður Kristinsson hafi gegnt burðarhlutverki við innflutning á fimm kílóum af amfetamíni hingað til lands frá Spáni. Þá er útlit fyrir að innflutningurinn hafi verið þaulskipulagður og talið er að fleiri séu viðriðnir málið.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í gögnum málsins, sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Sigurður hefur frá upphafi játað sök í málinu en hann var látinn laus úr fangelsi á föstudag þar sem lögreglu tókst ekki að gefa út ákæru á hendur honum fyrir tilskilinn tíma, en lögum samkvæmt má lögregla ekki halda fólki lengur en í tólf vikur, nema ákæra sé gefin út.

Kynntist mönnum frá Mið-Austurlöndum á Benidorm

Sigurður lýsti því hjá lögreglu að hafa verið á Benidorm á Spáni seint í desembermánuði þar sem hann hafi kynnst mönnum frá Mið-Austurlöndum. Hann hafi svo fengið fíkniefnin afhent á hótelherbergi sem hann dvaldi á. Í framhaldinu sagðist hann hafa keypt vacumpökkunarvél og umpakkað fíkniefnunum.

Þá sagðist hann hafa lesið um Norðurlandamót í skák og því ákveðið að að kaupa taflmenn og stíla sendinguna á Skáksamband Íslands. 

Sigurður sagðist hafa varið um fjórum klukkustundum í að umpakka fíkniefnunum og koma þeim fyrir í taflmönnunum. Hann sagðist hafa brotið botninn á taflmönnunum og svo steypt hann aftur og notað hárþurrku til að þurrka gipsið. Í kjölfarið hafi hann farið með taflmennina í málun og látið mála þá gyllta og silfraða, og svo látið útbúa granítplötur undir taflmennina. Þeir sem útbjuggu granítplöturnar sendu pakkann svo til Íslands, að beiðni Sigurðar. 

„Felustaður“ á fótboltavelli

Hlutirnir fóru að flækjast þegar finna átti manneskju til þess að taka á móti pakkanum, sagði Sigurður. Hann hafi ákveðið að hafa samband við félaga sinn, sem hann taldi ólíklegt að hefði lögregluna á eftir sér. Hins vegar hafi hann logið því að um væri að ræða líkamsræktartengd efni, og að félagi hans hafi lítið spurt út í málið.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Sigurði, kemur fram að umræddur félagi hafi lýst því í skýrslutökum að Sigurður skýrslutökum að Sigurður „ætti 100% þennan fíkniefnapakka“ og að hugsanlega hafi þriðji maðurinn átt að sækja pakkann á „felustaðinn við fótboltavöllinn í Leirvogstungu.“ 

Sigurður hefur sjálfur viðurkennt að hafa logið að félaga sínum, og ákveðið að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart honum til þess að nota hann til verksins. Hann hafi þó komið til Íslands til þess að losa vin sinn úr gæsluvarðhaldi, og sanna sakleysi hans. 

Sem fyrr segir var Sigurði sleppt úr haldi á föstudag, eftir að hafa sætt gæsluvarðhaldi í tólf vikur samfleytt. Hann var hins vegar úrskurðaður í fjögurra vikna farbann. Lögregla vill ekkert tjá sig um málið, en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst liggur enginn annar undir grun í málinu en Sigurður.

Ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í dag hefur Sigurður einnig verið ákærður fyrir skattalagabrot í gegnum fyrirtæki sitt SS verk ehf. Unnur Birgisdóttir, tengdamóðir hans, og Armando Luis Rodriguez, er einnig ákærður í málinu. 

Meint skattsvik þeirra þriggja nema samanlagt tæpum 105 milljónum króna.