Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld að til greina komi að taka neysluverðsvísitöluna úr sambandi.

Ráðherrann sagði vísitöluna ómarktækt mælitæki því eftirspurn í mörgum neysluflokkum sé hverfandi eða jafnvel engin. Þar fyrir utan friðaði slíkt heimilin í landinu sem óttist verðbólguskot.

„Kannski 30 til 35 prósent af reiknuðum stærðum í vísitölunni eru farnar og það er ekki hægt að nota þá vísitölu sem verið hefur,“ sagði Sigurður Ingi sem kvað Hagstofuna og hagstofur nágrannalanda hafa verið í samtali um þetta.

„Kannski væri gáfulegast að við segðum, alveg eins og við erum að reyna að fresta launum og breytingum og öllu; Erum við ekki bara með fasta vísitölu í einhvern x mánuð og við ætlum bara að reyna að komast yfir þessa gjá.“

Sigurður Ingi ítrekaði að þjóðfélagið hafi líklega aldrei verið betur í stakk búið til að takast á við efnahagsáföll af stærðargráðunni sem nú blasi við. Aldrei hafi hagstjórnin haft jafn mörg tól og þá séu auðlindir landsins þess eðlis að viðspyrnan geti orðið kröftugri hér en víða annars staðar.

Kvaðst ráðherra þó óttast að jafn útflutningsdrifið hagkerfi, eins og Ísland sé, bíði skaða af harðari landamærapólitík, sem eflaust verði að veruleika í ljósi viðbragða um allan heim.