Sigurður Ragnar Kristins­son var í Héraðs­dómi Reykja­ness í dag dæmdur í tuttugu mánaða skil­orðs­bundið fangelsi fyrir stór­fellt skatta­laga­brot í gegnum fyrir­tæki sitt, SS hús. Hann var að auki dæmdur til að greiða ríkis­sjóði 137 milljónir króna, sem hann þarf að greiða innan fjögurra vikna, vilji hann sleppa við fangelsis­vist. Vísir greinir frá niður­stöðu dómsins. 

Sigurður var á­kærður fyrir að hafa staðið skil á röngum virðis­auka­skatt­skýrslum á árunum 2014 og 2015 með því að hafa of­talið inn­skatt um tæpar 34 milljónir króna á grund­velli fimm til­hæfu­lausra sölu­reikninga og van­talið virðis­auka SS verks allt árið 2015 og fyrstu mánuði ársins 2016. Þá var hann á­kærður fyrir að hafa ekki staðið skil á opin­berum gjöldum. 

Verjandi Sigurðar fór fram á að málinu yrði vísað frá, en dómari hafnaði þeirri kröfu, og dæmdi hann bæði til skil­orðs­bundinnar fangelsis­vistar og sektar. Sigurður mun þurfa að sitja í fangelsi í 360 daga, greiði hann ekki sektina. Að auki hefur honum verið gert að greiða verjanda sínum 2,4 milljónir króna.

Sigurður hefur verið mjög til umfjöllunar á árinu, fyrst og fremst vegna Skáksambandsmálsins svokallaða sem varðar fíkniefnasmygl hingað til lands, og alvarlegs slyss sem þáverandi eiginkona hans, Sunna Elvira Þorkelsdóttir, lenti í á heimili þeirra á Malaga á Spáni í ársbyrjun. Sigurður bíður dóms í Skáksambandsmálinu, en það er nú til meðferðar hjá dómstólum.