Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi Bankastjóri Landsbankans, var í dag dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Hæstarétti í endurupptöku Ímon-málsins svokallaða en vegna tafa, meðal annars vegna endurupptöku málsins, var refsing skilorðsbundin til tveggja ára.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að með sömu rökum hefði hæfileg refsing gegn Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, verið fjórir mánuðir en þar sem hún hefði afplánað refsingu á grundvelli eldra dóms var henni ekki gerð nein refsing.
Elín og Sigurjón voru ákærð fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik með því að hafa án heimilda veitt einkahlutafélaginu Ímon rúmlega 5 milljarða króna lán nokkrum dögum fyrir setningu neyðarlaganna árið 2008.
Sigurjón var einnig dæmdur í níu mánaða fangelsi í endurupptöku á markaðasmisnotkunarmáli gegn sér en refsingunni var breytt í tveggja ára skilorð vegna tafa málsins. Allur kostnaður af rekstri málanna fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði.
Héraðsdómur sýknaði Elínu og Sigurjón árið 2014 en þau voru síðan dæmd sek í Hæstarétti ári síðar. Elín var þá dæmd í átján mánaða fangelsi og Sigurjón í þriggja og hálfs árs fangelsi.
Ein af þeim ástæðum sem tilteknar eru í endurupptökubeiðnum Sigurjón og Elínar er sú að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson sem dæmdu í málum þeirra, hafi átt hluti í Landsbankanum fyrir hrun og hafi því orðið fyrir verulegu tjóni við fall bankans. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að Elín hefði ekki fengið réttláta málsmeðferð þar sem Viðar Már, einn dómari máli hennar, hefði tapað 8,5 milljónum króna við fall Landsbankans.
Íslenska ríkið samþykkti í kjölfarið að Sigurjón hefði ekki fengið réttláta málsmeðferð og var mál hans fyrir MDE fellt niður. Hæstiréttur samþykkti endurupptökubeiðni Elínar og Sigurjóns í maí 2019.
Sigurjón og Elín gáfu skýrslu fyrir Hæstarétti í síðasta mánuði og var það í annað skipti í sögu réttarins sem sönnunarfærsla með aðila- og vitnaleiðslum fór fram í Hæstarétti.
Ástæðan fyrir milliliðalausri sönnunarfærslunni í Hæstarétti eru áfellisdómar og gagnrýni frá Mannréttindadómstól Evrópu um að Hæstiréttur hafi snúið sýknudómum í héraði við og sakfellt án þess að fram færi bein sönnunarfærsla fyrir réttinum.