Sigurjón Kjartansson, einn handritshöfunda Ófærðar 2, hefur beðist afsökunar á því hugsunarleysi að láta illa innrætta persónu, hræddan rasista, tala um félaga sinn sem „kortér í Downs“ í þættinum sem sjónvarpað var í gær.

Mæður barna með Downs-heilkennið vöktu athygli á þessu orðalagi í þættinum á Facebook og sögðu það meðal annars særandi og til þess fallið að viðhalda fordómum í samfélaginu.

Sjá einnig: Mæðrum barna með Downs sárnar Ófærð

Diljá Ámundadóttir Zoëga er einn þeirra og hún ávarpaði aðstandendur Ófærðar beint á Facebook-vegg sínum og sagði „niðrandi“ setninguna hafa stungið. Þá benti hún á að „orð eru svo máttug“ og ábyrgð handritshöfunda því mikil. Sigurjón hefur nú brugðist við ósk hennar um góð viðbrögð með svari við stöðuuppfærslu hennar.

„Kæra Diljá. Ég er semsagt þessi handritshöfundur sem skrifaði þessi ósmekklegu orð ofaní munn hins uppskáldaða Markúsar, sem er reiður og hræddur rasisti,“ skrifar Sigurjón og segir rétt að „það hefði mátt finna annað orðfæri til að lýsa slæmu innræti Markúsar en akkúrat þessa setningu og ég tek fulla ábyrgð á því.“

Sigurjón biðst síðan, fyrir sína hönd og annarra aðstandenda Ófærðar, afsökunar á „þessu hugsunarleysi“, og segir þau að sjálfsögðu munu hafa þessa ábendingu í huga í framtíðinni.