Sigurður Tómas Magnússon er metinn hæfastur til að hljóta embætti hæstaréttardómara að mati dómnefndar um hæfni umsækjenda. Niðurstaða nefndarinnar hefur verið birt á vef stjórnarráðsins.

Búast má við að ráðherra skipi í stöðuna á næstu dögum en Helgi I. Jónsson hefur þegar látið af embætti við Hæstarétt.

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að dómnefndin hefði sent drög að niðurstöðu til umsækjenda og gefið kost á andmælum og að Sigurður Tómas hefði verið efstur á blaði nefndarinnar í þeim drögum.

Auk Sigurðar Tómasar sóttu um embættið Aðalsteinn E Jónasson, Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson, allir dómarar við Landsrétt, auk Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara.

Í áliti nefndarinnar kemur fram að Davíð Þór og Jóhannes drógu umsóknir sínar til baka.

Sigurður Tómas Magnússon er fæddur 15. júní 1960 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands vorið 1985. Auk dómarastöðu við Landsrétt hefur hann gegnt embætti héraðsdómara og prófessorsstöðu við Háskólann í Reykjavík. Hann var einnig settur ríkissakóknari í einum umfangsmestu sakamálum síðari tíma á Íslandi, svokölluðum Baugsmálum og sótti þau bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.