Á miðvikudag hefst málflutningur í máli Frigusar II gegn ríkinu og Lindarhvoli ehf. vegna sölu á Klakka ehf., sem var ein stöðugleikaeignanna sem gömlu bankarnir afhentu ríkinu. Fjármálaráðuneytið stofnaði Lindarhvol til að ráðstafa sumum þeirra eigna.
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málum Lindarhvols, ber vitni en lögmaður ríkisins og Lindarhvols, Steinar Þór Guðgeirsson, hafði barist gegn því.
Sigurður sendi forseta Alþingis harðorða greinargerð um Lindarhvol er hann hætti sem settur ríkisendurskoðandi. Stangast hún mjög á við skýrslu Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisendurskoðanda sem gaf starfsemi Lindarhvols fagra einkunn.
Búast má við að í máli Sigurðar komi fram upplýsingar sem Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur hindrað að líti dagsins ljós. Hann hefur neitað að birta greinargerð Sigurðar þótt forsætisnefnd Alþingis hafi samþykkt birtingu.