Fimmta dauðsfallið hérlendis vegna COVID-19 sjúkdómsins átti sér stað í dag þegar Sigurður Sverrisson andaðist á Landspítalanum í Fossvogi. Sigurður, sem var fæddur árið 1953, hafði barist við sjúkdóminn undanfarnar vikur og hafði sú barátta verið afar hörð.

Um tíma virtist sem svo að Sigurður væri að hafa betur í baráttunni. Rétt fyrir helgi var hann tekinn af öndunarvél og virtust horfurnar vera að batna. Því miður ágerðist þó sjúkdómurinn, brast á með meiri þunga en áður og hafði Sigurð að lokum undir.

Rétt áður en Sigurður veiktist hafði hann kvatt eiginkonu sína, Mary Pat Frick, en hún lést þann 8. mars síðastliðinn.

Hugaríþróttir áttu hug Sigurðar allan. Hann var í hópi albestu bridgespilara landsins og var mikill skákáhugamaður.

Samúðarkveðjum rignir inn á Facebook-síðuna „Íslenskir skákmenn“ en í þeim hópi var Sigurður afar vinsæll.