Sigurður Ingi Jóhannsson er lykilmaður í næstu ríkisstjórn ef marka má nýja þingsætaspá á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Hún er byggð á þremur nýlegum könnunum MMR.

Framsóknarflokkurinn kemur við sögu í 13 af 15 mögulegum stjórnum en þar á eftir eru Vinstri-græn með 12 kosti, Viðreisn með 10 og Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin með sjö.

Þá eru sjö mögulegar ríkisstjórnir með fjórum flokkum og átta mögulegar fimm flokka stjórnir sem gætu myndað meirihluta á þingi.

Vinstristjórn getur ekki náð meirihluta nema með fimm flokka ríkisstjórn að sögn Morgunblaðsins.

„Framsóknarflokkurinn vill vera leiðandi og við stefnum auðvitað að því og við sjáum að málflutningur okkar hann hefur svo sannarlega verið að ná í gegn,“ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í samtali við Fréttablaðið í byrjun september.

Í könnun Prósents sem var gerð fyrir Fréttablaðið fyrir helgi kemur fram að fjögurra flokka ríkisstjórn gæti orðið að veruleika.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mælast með áberandi meira fylgi á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, að sama skapi mælist Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn með meira fylgi á höfuðborgarsvæðinu.