Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, segist skynja áhyggjur meðal Íslendinga, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni, vegna loftslagsvárinnar en benti um leið á að heiminum verði ekki bjargað með áhyggjum í stefnuræðu sinni á Alþingi í dag.

Í ræðu sinni byrjaði Sigurður Ingi á því að minna á mikilvægi þess að í störfum á Alþingi væri það hlutverk þingmanna að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum.

„Það er mikill heiður að sitja í þessum sal og fá tækifæri til að hafa áhrif til góðs í samfélaginu okkar. Það eru miklar skyldur lagðar á herðar okkar sem hér störfum í þágu lands og þjóðar. Okkar verkefni er að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum. Okkar verkefni er að takast á við framtíðina.“

Okkar verkefni er að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum

Í ræðu sinni minntist Sigurður Ingi á mikilvægi þess að gripið yrði til aðgerða en um leið að það þyrfti sinn skerf af bjartsýni þegar kemur að loftslagsmálum. Í kjölfarið á því talaði Sigurður um að aðstæður á Íslandi gætu reynst þjóðinni mikilvægar í þessum málum.

„Við ætlum að nýta þær einstöku aðstæður sem við búum við á Íslandi, þá þekkingu sem við höfum á endurnýjanlegum orkugjöfum og þann kraft sem býr í fólki og atvinnulífi til að leysa þau verkefni sem að okkur snúa og gefa öðrum verkfæri til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.“

Sigurður Ingi telur að afkoma ríkissjóðs sýndi fram á að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar við áhrifum heimsfaraldursins hefðu reynst vel og talaði einnig um mikilvægi þess að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra utan höfuðborgarsvæðisins

„Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið til að fólk eigi aukna möguleika á því að velja sér hvar það vill búa.“

Í ljósi þess kvaðst Sigurður hæfilega bjartsýnn fyrir næstu skrefum.

„Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.“