Ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sóknar­flokks og Vinstri grænna var kosin til að bæta kjör al­mennings og vinnur að því hörðum höndum. Ís­lendingar standi vel varðandi orku­mál ó­líkt mörgum ná­granna­þjóðum. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhanns­son, inn­viða­ráð­herra og for­maður Fram­sóknar­flokksins, við um­ræður um stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra á Al­þingi í kvöld.

Sigurður Ingi hóf mál sitt á því að ræða um Co­vid-far­aldurinn.

„Kerfin okkar stóðust álagið en það tekur tíma að ná fullum styrk að nýju. Heilbrigðiskerfið okkar með öllu því magnaða fólki sem þar starfar sýndi styrk sinn og fyrir það erum við þakklát.“ Faraldurinn hafi tekið á fyrir alla landsmenn, margt hafi breyst og honum fylgt ekki bara líkamleg áhrif fyrir fólk heldur einnig andleg og félagsleg.

Að mati Sigurðar Inga er þrótturinn í íslensku samfélagi að aukast eftir því sem líður á haustið, sem og gleðin. Ferðamenn eru teknir að koma til landsins í stórum stíl og „auðgi byggðir um landið allt.“ Því fylgi bætt efnahagsástand.

Náttúran lykill að lífs­gæðum

Náttúran var Sigurði Inga hugleikin í ræðu sinni. Þau lífsgæði sem Íslendingar búi við megi að stórum hluta þakka íslenskri náttúru. Feta þyrfti hinn gullna meðalveg verndar og nýtingar.

„Hún dregur ferðamenn til landsins, hún fóstrar landbúnað og sjávarútveg og í henni er uppspretta orkuauðlindarinnar. Og síðast en ekki síst er hún dýrmæt í sjálfri sér með sínum fögru og oft hrikalegu myndum og flóknu og einstöku lífríki.“

Náttúran var Sigurði Inga hugleikin í ræðu sinni.

Ástandið sem nú væri upp í nágrannalöndum undirstrikaði enn frekar hve lánsöm íslensk þjóð væri með innlenda orkuframleiðslu og ef haldið væri rétt á spöðunum gæti hún veitt okkur einstakt orkusjálfstæði. Það væri ábyrgð núverandi ríkisstjórnar að nýta tækifærin vel.

Sigurður Ingi léði einnig máls á breytingum á Stjórnarráði Íslands sem ráðist var í eftir þingkosningar í fyrra, þar sem innviðaráðuneytið var sett á fót. Markmið breytinganna væri að stjórnkerfið þjónaði samfélaginu betur.

Segir að­gerðir í hús­næðis­málum marka að mörgu leyti tíma­mót

Ástandið á húsnæðismarkaðnum bar einnig á góma í ræðu formanns Framsóknarflokksins. Það færi ekki framhjá neinum þær miklu hækkanir sem orðið hafa á húsnæðisverði vegna skorts á framboði. Ráðuneyti hans hefði ráðist í miklar aðgerðir til að bæta úr því, meðal annars með samkomulagi stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu.

„Sú vinna sem þegar er hafin í húsnæðisuppbyggingu markar að mörgu leyti tímamót. Hér eru ekki á ferðinni neinar skammtímalausnir, kerfið er ekki plástrað, heldur lagður grunnur að markvissri uppbyggingu til lengri tíma. Með þessum aðgerðum verður skapað jafnvægi sem kemur í veg fyrir miklar sveiflur sem leggjast ólíkt á nýjar kynslóðir sem koma inn á húsnæðismarkað,“ sagði Sigurður Ingi.

Nú þyrfti að koma böndum á þenslu í efnahagnum og verðbólgunni. Ríkisstjórnin hafi verið kosin til að bæta kjör almennings og það væri unnið að því af krafti að takast á við ástandið.