Sigurður Ingi Jóhanns­son, inn­viða­ráð­herra og for­maður Fram­sóknar­flokksins, segist treysta Bjarna Bene­dikts­syni fjár­mála­ráð­herra en það sama geti hann ekki sagt um Banka­sýslu ríkisins.

Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga á Al­þingi í morgun.

Jóhann Páll Jóhanns­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, steig í pontu og vísaði meðal annars í mælingar á trausti til Bjarna þegar hann bar upp fyrir­spurn til Sigurðar.

„Nú liggur fyrir sam­kvæmt trausts­mælingum að 70% þjóðarinnar treysta Bjarna Bene­dikts­syni illa. Þess vegna vil ég spyrja […]: Treystir hæst­virtur inn­viða­ráð­herra hæst­virtum fjár­mála­ráð­herra Bjarna Bene­dikts­syni vel til að halda á­fram að hafa for­göngu um einka­væðingu og sölu á ríkis­eignum? Treystir inn­viða­ráð­herra hæst­virtum fjár­mála­ráð­herra Bjarna Bene­dikts­syni til þess verk­efnis?

Sigurður Ingi benti á að hann hefði setið í þing­manna­nefnd sem rann­sakaði banka­hrunið og þráðurinn í gegnum þá vinnu hafi snúist um það að stjórn­mála­menn hefðu ekki hlítt ráð­gjöf sér­fræðinga.

„Í þessu máli hlíttum við ráð­gjöf sér­fræðinga. Ég vildi að við hefðum sett frekari skil­yrði. Og já, hátt­virtur þing­maður, ég er svekktur yfir því, bæði í minn garð og okkar allra. Ég held við séum öll svekkt yfir því að þetta hafi mis­tekist vegna þess að fyrri um­ferðin gekk mjög vel,“ sagði Sigurður Ingi sem kvaðst bera fullt traust til fjár­mála­ráð­herra.

„Ég treysti Bjarna Bene­dikts­syni. Ég starfa með honum í ríkis­stjórn og treysti honum til þess. Við erum hins vegar búin að taka á­kvörðun um að stöðva sölu­ferlið vegna þess að ég treysti ekki Banka­sýslunni, ég treysti henni ekki eftir það sem á undan er gengið. Ég vil að það liggi fyrir rann­sóknir áður en við tökum fleiri á­kvarðanir og að við finnum ferli sem við treystum öll betur en því sem við erum með í dag.“