Gríðarlega miklar tafir urðu á flugumferð og urðu margir ferðalangar strandaglópar á Keflavíkurflugvelli þegar allir vegir að flugstöðinni lokuðust í gær og síðustu daga. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra segir að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til þess að slíkt gerist ekki aftur.

Þetta koma fram í viðtali hans við Reykjavík Síðdegis á bylgjunni í dag en Sigurður Ingi segir það gríðarlega mikilvægt að halda vegum að flugstöðinni opnum.

Ég ætla bara að segja að það verður að vera meiri áhersla á það að halda Reykjanesbrautinni sem er tengingin okkar við útlönd og millilandaflugvöllinn í lagi,“ sagði Sigurður Ingi í þættinum en hann telur að ekki hafi verið gerð mistök varðandi það að loka Reykjanesbrautinni of snemma. „Á meðan flugvöllurinn er í lagi þá hljótum við að geta haldið veginum opnum líka,“

Kallar saman helstu aðila

Í samtali við Fréttastofu sagði Sigurður Ingi að til þess að koma í veg fyrir að aðstæður sem þessar komi ekki fyrir aftur muni hann nú kalla á fund til sín alla helstu aðila sem koma að vegalokunum.

Þeir aðilar sem hefur kallað saman séu meðal annars Vegagerðin, Almannavarnir og Lögreglan. Farið verði yfir þá ferla og úrræði sem eru notuð vegna lokana núna og unnið að því að finna mögulegar úrlausnir.

„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að margir vegir verða að vera opnir og þegar alþjóðaflugvöllurinn er opinn þá er alveg bagalegt að vegir sem liggja að honum séu ekki opnir,“ sagði Sigurður Ingi.

„Á meðan flugvöllurinn er opinn þá hljótum við að gera allt sem við mögulega getum til þess að vegirnir að flugvellinum séu opnir.“

Varðandi það hvaða úrræði stæðu til sagði Sigurður Ingi að aðilar yrðu að koma fyrst saman áður en hægt væri að ræða um það hverjar endanlegar lausnirnar væru.

Reykjanesbrautin réð úrslitum

Ákveðin gagnrýni hefur komið fram um það Reykjanesbrautinni hafi verið lokað of snemma. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sagði í viðtali við Hringbraut fyrr í dag að hann teldi að í raun hefði lokun Reykjanesbrautarinnar haft úrslit um tafir á flugi.

„Já þetta var bara Reykjanesbrautin, það er búið að vera hægt að fljúga, völlurinn er búinn að vera opinn allan tímann. Það er Reykjanesbrautin sem hefur stöðvað flug og haft áhrif á okkar viðskiptavini með þessum hætti. Þannig að vegagerðin þarf að skoða sín mál?“ sagði Bogi í samtali við Hringbraut.

„Menn eru náttúrulega bara að horfa á öryggi í þessu væntanlega og taka ákvarðanir miðað við forsendur og vinna sína vinnu held ég, en ég held að stjórnvöld þurfi að horfa á innviðina og hvernig er hægt að styrkja þá. Svo hægt sé að koma í veg fyrir svona ástand,“ sagði Bogi að lokum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Fréttablaðið/ERNIR

Lokað of seint eða of snemma

„Spurningin er hvort menn voru of seinir að loka þar sem það fylltist allt af bílum,“ sagði Sigurður Ingi en margir ökumenn lentu í vandræðum á Reykjanesbrautinni í gær og urðu að yfirgefa bíla sína og skilja þá eftir. Þetta olli því að snjómoksturstæki áttu mjög erfitt með að komast leiðar sinnar.

„Þegar það er allt fullt af bílum sem eru lokaðir inni þá tekur gríðarlegan tíma að losa þá. Þannig kemur þessi gagnrýni á það að loka eigi fyrr en ekki seinna til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist,“ sagði Sigurður Ingi.

Lexíur frá síðasta vetri

Svipaðar aðstæður sköpuðust á svipuðum tíma síðasta vetur og um það hvort dregnar hefðu verið einhverjar lexíur af síðasta vetri sagði Sigurðu Ingi svo vera.

„Við höfum farið yfir það áður. En ég hef rætt við veðurfræðinga sem hafa sagt að veðrið hafi verið með óvenjulegum hætti. Bæði leiðinlega vont og lengi,“ Áður komu svona hvellir sem gengu yfir á nokkrum klukkutímum og svo hægt að moka. Svo var ágætur dagur þó að það kæmi kannski hvellur daginn þar á eftir.

Möguleikar á mjúkri lokun

Rætt var um möguleikann á því að setja á mjúka lokun í viðtali Sigurðar Inga við Reykjavík Síðdegis þar sem hægt væri að hleypa vel búnum og ökufærum bílum í gegn. Sigurður Ingi telur að þetta sé ekki raunveruleg lausn.

„Það hefur verið rætt en þetta hefði ekki hjálpað til við að færa fólk frá Keflavík eða flugstöðinni,“ segir Sigurður Ingi en sagði þó að mögulega væri hægt að flokka þetta út frá stærðum bíla.

„Það þarf að koma í veg fyrir að vanbúnir og smærri bílar keyri inn í skafl og stoppi. Hefur Vegagerðin nægar heimildir? Hún hefur meðal annars ekki vald til þess að draga bíla á brott. Það er ekki nógu gott þegar þeir eru fyrir og snjóruðningstæki geta ekki keyrt til þess að halda opnu,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði einnig að prófað hefði verið að setja upp einskonar fylgdarakstur en það fyrirkomulag væri ekki nægilega öruggt.

„Það endar oft með því að röðin er orðin of löng og veður er orðið þannig að síðasti bíllinn byrjar að stoppa og þar með verður sú leið lokuð,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við að lokum „við þurfum að fara yfir þetta því við getum ekki upplifað svona ástand aftur.“