Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, telur að ríkisvaldið eigi að búa þannig um hnútana að fólk sem kemur úr ofbeldissamböndum, þar sem engir líkamlegir áverkar eru sjáanlegir, geti fengið aðstoð. „Það sé reynt að leiða fólk saman til að finna út úr því hvað gerðist.“

Sem dæmi um lausn segir Sigurður að hægt sé að leysa málin líkt og gert er í forræðisdeilum hjóna, þar sem fengnir eru sálfræðingar, til að aðstoða við að leysa úr þeim deilum.

Þetta sagði Sigurður í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þegar hann og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og kynjafræðingur, tókust hart á í umræðum um kynferðisofbeldi.

„Þetta er svo mikið þvaður í manninum að ég á ekki til orð,“ sagði Hanna Björg í kjölfarið. Hún segir Sigurð hafa staðið fyrir herferð gegn þolanda kynferðisofbeldis og það að lýsa sig svo saklausan af því sé algjörlega fráleitt. Vísar hún þar til máls Þórhildar Gyðu.

Aldrei hægt að eiga málefnalegar umræður

Hanna Björg sagði í þættinum að það væri áhugavert að sjá muninn á umræðu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi miðað við umræðu um annars konar ofbeldi. Viðbrögðin væru allt öðruvísi og sökin sett á þolendur.

Hanna Björg sagði þolendur vera komna með nóg, þeir væru að snúa bökum saman og mynda samtakamátt og krefjast réttlætis. Það væri verið að biðja um réttlæti og því mætti ekki gleyma.

Hins vegar væri Sigurður að reyna reka þolendur aftur ofan í myrkrið og þjáningu. Sigurður var ekki sammála því og sagðist ekki vera reka neina þolendur ofbeldis ofan í holu.

Hann teldi hins vegar rétt að í siðuðu samfélagi líkt og hér á landi væri réttast að þolendur ofbeldis leituðu til yfirvalda. Viðurkenndi Sigurður þó að þolendur kynferðisofbeldis hefðu líklega ekki alltaf fengið réttar móttökur hjá yfirvöldum.

Kvartaði Sigurður yfir því að aldrei væri hægt að eiga málefnalegar umræður um málið vegna allra öfganna í þeim. „Fyrirgefðu Sigurður ég bara get ekki annað en hlegið af þér,“ sagði Hanna Björg þá.

Þyrfti að kynna sér málin

Að sögn Hönnu Bjargar hefði Sigurður áhyggjur af því að halda ekki sinni forréttindastöðu.

Sigurður var ekki alveg á sama máli, „ég er ekki forréttindapési.“ Að sögn Sigurðar tæki hann að sér mál fyrir bæði kyn og öll kyn og að hann gætti hagsmuna allra skjólstæðinga sinna eftir fremsta megni.

Hanna Björg útskýrði nokkur hugtök fyrir Sigurður líkt og nauðgunarmenningu og feðraveldið. Hún sagði Sigurð ekki mjög vel að sér í þessum málum.

Að sögn Hönnu Bjargar er enginn að taka neinn af lífi í umræðunni líkt og Sigurður vildi meina.

Tölfræðin ekki með þolendum

Í lokin benti Hanna Björg á þær staðreyndir að tölfræðin sé ekki með þolendum kynferðisofbeldis, þolendur viti nákvæmlega hvernig meðferð þeir fái.

„Sigurður er búinn að undirstrika það ítrekað með öllum sínum gjörðum,“ segir Hanna Björg.

Hún segir líkurnar á því að þeim sé ekki trúað séu miklar og líkur á lögreglurannsókn séu óverulegar.