Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, tjáði sig um ummæli sín í garð Vigdísar Häsler,  framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Þar sagðist hann ekki hafa íhugað að segja af sér. Auk þess sagðist hann hafa gert tilraunir til að biðja Vigdísi afsökunar áður en málið fór á loft í fjölmiðlum. Hann vildi ekki endurtaka ummælin sem hafa verið til umræðu.

Líkt og flestir vita lét Sigurður umrædd orð falla í gleðskap síðasta fimmtudag. Sigurður sagði að honum hafi ekki þótt viðeigandi að lyfta Vigdísi í planka, og segir að í kjölfarið hafi hann „látið falla orð sem ég sé eftir og hef beðist afsökunar á,“

Þá sagðist Sigurður skilja vel upplifun  Vigdísar og hélt því fram að um helgina hafi hann reynt að hafa samband við hana til að biðjast afsökunar. „Því reyndi ég að hafa samband við hana strax daginn eftir, og reyndar um helgina í gegnum formann Bændasamtakanna, því ég vildi gefa henni svigrúm,“

Vildi ekki gefa upp hver ummælin væru

Þá var Sigurður spurður út í hver ummælin sem hafa verið til mikillar umfjöllunar væru, og þá svaraði hann: „Það sem einu sinni er sagt of mikið á maður ekki að segja aftur,“. Hann vildi ekki segja hvort ummælin vörðuðu húðlit eða kyn hennar.

Þá ítrekaði hann að hann hefði beðist afsökunar opinberlega, bæði á Facebook, og nú aftur í kvöldfréttum. Og þá vonist hann til þess að geta einnig gert það persónulega við Vigdísi.

Sigurður var spurður hvers vegna hann hefði látið ummælin falla og þá sagði hann að „langt hefði verið komið í gleðskapinn,“ og að það væri verið að fá hann til að gera hluti sem hann hefði ekki áhuga á, því honum hefði þótt óviðeigandi að halda Vigdísi í planka. Þá hafi ummælin fallið í pirringi.

Ingveldur ekki farið með rangt mál

Þá sagði ráðherra að  Ingveldur Sæmundsdóttur, aðstoðarmaður sinn, hefði ekki gerst sek um að fara með rangt mál, heldur hefði hún lýst sinni eigin upplifun.

Sigurður sagðist upplifa traust frá ríkisstjórninni og sagðist ekki hafa íhugað að segja af sér. „Mér finnst ekki vera tilefni til þess,“