Sigur­borg Ósk Haralds­dóttir, for­maður skipu­lags-og sam­göngu­ráðs Reykja­víkur­borgar, hafnar því sem hún kallar meintan flótta úr mið­bænum sem slegið sé upp í aug­lýsingum í Morgun­blaðinu og leiðara Morgun­blaðsins. Sigur­borg tjáir sig um málið á Face­book.

Nokkuð hefur verið fjallað um rekstra­r­örðug­leika veitinga­staða og kaffi­húsa í mið­bænum að undan­förnu. Sigur­borg segist með færslu sinni vilja á­rétta að mið­bær Reykja­víkur sé fullur af fólki, veitinga­stöðum og verslunum. Hún segir hann bók­staf­lega iða af fjöl­breyttu mann­lífi.

„Á göngu minni niður Lauga­veginn og um neðsta hluta Skóla­vörðu­stígs taldi ég 21 auð verslunar­rými. Á þessu svæði eru 251 verslunar­rými og því er um að ræða 8,4% af heildar­fjölda versluna­rýma. Af þessum 21 rýmum sá ég að 7 þeirra eru að fara að opna með nýjar verslanir,“ skrifar Sigur­borg.

Hún segir það sama fjölda og Guð­jón Frið­riks­son, sagn­fræðingur, hafi talið í apríl síðast­liðnum. „Það er lík­legt að það verði alltaf ein­hver lág prósenta af verslunar­rými auð hverja stundina, enda hreyfist verslun og þjónusta um borgina. Það eru einnig auð rými í Kringlunni og Smára­lind þó ekki birtist heil­síðu­aug­lýsing um það í Morgun­blaðinu.“

Segir mið­bæinn í vexti ekki hnignun

Hún bendir á að eitt sinn hafi það verið þannig að efri hluti Lauga­vegarins og í raun stór hluti mið­bæjarins hafi verið nánast tómur og með lítið mann­líf.

„En það sem við sjáum í dag er allt önnur mynd. Mið­bærinn hefur stækkað og nær núna frá Hlemmi og alveg niður á Granda. Þetta er svæði sem er lifandi og með ó­trú­lega flóru veitinga­staða. Fleiri en 60 aðilar hafa opnað nýja verslun eða veitinga­stað í mið­bænum frá síðasta ári. Mið­bærinn er því í vexti en ekki hnignun,“ skrifar Sigur­borg.

„Heildar­fjöldi bíla­stæða í mið­borginni verða 4.189 þegar bíla­kjallari Hafnar­torgs verður full­búinn. Með þeim 3.671 bíla­stæði sem eru á yfir­borði gera þetta 7.860 bíla­stæði - eða mörg þúsund bíla­stæði! Og þeim hefur fjölgað en ekki fækkað síðustu ár. Þetta er nú öll að­förin sem borgar­stjórn stendur í. Það er gott að hafa í huga að lengsta mögu­lega leiðin sem það tekur að ganga frá bíla­stæða­húsi og að verslun og þjónustu er að há­marki 350 metrar eða 3 mínútur.“

Gangandi fái enn minnsta plássið

Sigur­borg bendir á að göngu­götur um allan heim séu gerðar til að bæta að­gengi al­mennings. Þrátt fyrir að 81 prósent veg­far­enda séu gangandi fái þeir samt minnsta plássið.

„Í dag eru lang­flestar verslanir með tröppur eða upp­stig til að komast inn um dyrnar, gang­stétta­brúnir hafa hamlandi á­hrif á þá sem eru í hjóla­stól, engar leiði­línur eru í yfir­borði fyrir blinda og sjón­dapra, skilti og önnur borgar­hús­gögn taka mikið pláss af gang­stéttum og eru í vegi fyrir gangandi fólki á­samt því að bílar fá í dag mesta plássið.“

Hún segir að allt muni breytast til batnaðar með Lauga­veg sem göngu­götu. „Þar verður yfir­borð götunnar hækkað til að bæta að­gengi í verslanir, hannaðir verða rampar við aðrar verslanir og eru það einungis hægt vegna plássins sem eykst, gangandi fá miklu meira pláss, öryggi þeirra eykst, að­gengi fyrir fólk í hjóla­stól og með barna­vagna bætist til muna, kantar verða fjar­lægðir og leiði­línur settar í yfir­borð - bíla­stæði fyrir hreyfi­hamlaða verður fjölgað og loft­gæði batna veru­lega.“

Að lokum segir hún að málið sé ekki flókið. Al­menningur sé á­nægður með göngu­götur og bendir hún á að 77 prósent Reyk­víkinga telji að göngu­götur hafi já­kvæð á­hrif á mann­líf. „Það er aukning í fjölda gangandi veg­far­enda. Það er aukning í fjölda verslana og veitinga­staða. Fréttir af and­láti mið­bæjarins eru því stór­lega ýktar.“