Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð, lýsir mikilli óánægju með að fulltrúar Framsóknarflokksins og Fjarðalistans séu nú í viðræðum um meirihluta, þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið stærsta kosningasigur flokksins til þessa í sveitarfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn jók fylgi sitt um 16 prósent frá 2018 og fékk ríflega 40 prósent. Ragnar segir að vilji kjósenda sé skýr. Íbúar vilji Sjálfstæðismenn við stjórnartaumana.

„Það væri eðlilegast að við yrðum í meirihluta sveitarstjórnar. Við unnum stórsigur á sama tíma og Fjarðalistinn tapaði tveimur mönnum,“ segir Ragnar.

Þreifingar fóru fram eftir kosningarnar milli Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í Fjarðabyggð en upp úr þeim slitnaði. Virðist líklegast að óbreyttu að Sjálfstæðismenn endi í minnihluta.

Ragnar segist enn vonast til að Sjálfstæðismenn fái tækifæri og horft verði til lýðræðislegrar niðurstöðu.