Meðlimir hljómsveitarinnar Sigur Rósar segja að þeir hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð og vísa til mannréttindasáttmála Evrópu í máli sem snýr að kyrrsetningu eigna þeirra vegna meintra skattalagabrota. 

Fréttablaðið greindi frá því í mars að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði kyrrsett eignir Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Holm og Orra Páls Dýrasonar í desember, að kröfu tollstjóra. Um er að ræða kyrrsetningu upp á tæplega 800 milljónir króna en hæsta krafan er á hendur Jóni Þór, betur þekktum sem Jónsa, og hljóðar hún upp á 638 milljónir.

Sjá einnig: Eignir meðlima Sigur Rósar áfram í frosti

Héraðsdómur staðfesti í síðustu viku kyrrsetningu eignanna en rannsókn á meintum brotum hófst í ársbyrjun 2016. Búið er að birta úrskurði dómsins á vef héraðsdómstólanna.

Hættan á undanskoti ekki útskýrð

Þar segir að þremenningarnir telji brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar. Í kyrrsetningarbeiðninni hafi verið fram á að þeim yrði ekki tilkynnt um fyrirætlanirnar fyrirfram, en það sé þvert á rétt þeirra.

Jafnframt segja þeir að því hafi aldrei verið lýst, á nokkurn hátt, hvað gefi til kynna að ætla þeir hyggist skjóta eignum undan skatti.

Sjá einnig: Meðlimir Sigur Rósar sakaðir um skattsvik

Fréttablaðið hefur greint frá því að þremenningarnar beri fyrir sig handvömm endurskoðanda. Ekki hafi verið um ásetning að ræða og fara þeir því fram á að kyrrsetningargerðin verði felld úr gildi og kyrrsetningu á eignum þeirra aflétt.

Ráðgjöf sérfræðinga reyndist  vera mistök

Í dóminum kemur fram að Jónsi, Georg og Orri Páll hafi allir borið fyrir sig þekkingarleysi í fjármálum og fyrirtækjarekstri. Það sé ekki þeirra atvinna, heldur einbeiti þeir sér að tónlistinni.

Þeir hafi reitt sig á „kostnaðarsama ráðgjöf sérfræðinga“ í fjármálum og skattskilum sem reyndust vera mistök.

Í máli Jónsa var um að ræða kyrrsetningu á átta fasteignum, fjórum ökutækjum, bankareikningum og hlutafé í þremur félögum. Þá voru tvær fasteignir í eigu trommarans Orra Páls kyrrsettar, en verðmæti þeirra er um 82 milljónir króna. Tvær fasteignir í eigu bassaleikarans Georgs Holm voru kyrrsettar og er verðmæti þeirra 78,5 milljónir.

Beri sjálfir ábyrgð á framtals- og skattskilum

Í úrskurði dómsins í stærsta málinu, er varðar Jónsa, er upplýst að hann hafi komið með talsverða fjármuni til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og að hinar kyrrsettu fasteignir, sem metnar voru af tollstjóra á alls tæpar 400 milljónir króna, hafi verið bundnar kvöðum bankans vegna þess. Lögmaður hans fór fram á að kvaðirnar gerðu kyrrsetninguna óþarfa.

Því hafnar dómurinn í úrskurðinum. Auk þess telur dómurinn það ósannað hvernig brotinn hafi verið réttur þremenninganna til réttlátrar málsmeðferðar. Jafnframt hafnar dómurinn því að það hafi þýðingu við úrlausn málsins að þeir hafi lagt allt traust sitt á endurskoðandann. Slíkt hafi ekki áhrif á kyrrsetninguna og beri þeir sjálfir ábyrgð á framtals- og skattskilum sínum.

Hjördís Halldórsdóttir, lögmaður þremenninganna í málunum þremur, segir að niðurstöðu héraðsdóms verði áfrýjað til Landsréttar.