Núverandi og fyrrverandi liðsmenn hljómsveitarinnar Sigur rósar, þeir Jón Þór Birgisson, Orri Páll Dýrason, Georg Holm og Kjartan Sveinsson, neituðu allir sök við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun um að hafa svikist undan skatti.

Við þingfestingu málsins í dag var bætt við ákæru á hendur Jóni Þór og félaginu Frakkur slf. hann neitaði einnig sök gagnvart þeirri ákæru.

Mennirnir voru ákærðir í síðustu viku fyrir meiri háttar skattalagabrot. Upphæðirnar sem fjórmenningunum er samanlagt gefið að sök að hafa komist hjá að greiða eru um 150 milljónir íslenskra króna. Brotin varða allt að sex ára fangelsi og háum sektum.

Liðsmenn Sigur Rósar hafa lýst því yfir að málin megi meðal annars rekja til mistaka endurskoðanda sem þeir hafi greitt fyrir að sjá um fjármál sín. Þeir væru tónlistarmenn með litla sem enga þekkingu á fjármálum og fyrirtækjarekstri. Í yfirlýsingu sem send var út í síðustu viku kom fram að málið hefði verið til rannsóknar í langan tíma og að ríkisskattstjóri fallist á allar innsendar skýringar og upplýsingar og því hafi enginn ágreiningur verið á milli skattyfirvalda og hljómsveitarmeðlima. Þeir hörmuðu að héraðssaksóknari hefði samt sem áður gefið út ákæru og að málið þyrfti að fara fyrir dóm.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í mars í fyrra að meðlimir Sigur rósar væru til rannsóknar vegna skattsvika. Rannsóknin hefur verið umfangsmikil og voru í kjölfarið eignir fyrir 800 milljónir króna kyrrsettar.

Í dag var greint frá því að meðlimir hljómsveitarinnar fá enn ríflega hundrað milljónir á ári í erlendar höfundarréttartekjur. Hljómplötu- og DVD-sala dvínar en skilar enn milljónum. Tugir milljóna króna greiddar í arð út úr félögunum frá stofnun. Ársreikningar þeirra einkahlutafélaga sem koma fyrir í ákærum á hendur meðlimum Sigur Rósar varpa ljósi á umfang og fjárhagslega velgengni sveitarinnar sem í gegnum tíðina hefur verið sveipuð huliðshjúp.