Hljómsveitin Sigur Rós er komin með sína eigin línu af CBD- kannabisolíum í samstarfi við fyrirtækið Vona. Vona starfar í Massachusettsfylki í Bandaríkjunum.

CBD hefur mikið verið til umræðu hérlendis enda er Ísland meðal fárra vestrænna ríkja þar sem lagalegur vafi leikur á um lögmæti efnisins og Lyfjastofnun hefur lagst gegn innflutningi.

Um er að ræða tvær týpur, Svefn til hvíldar og Vöku til daglegra athafna. „Þetta er eins og gullgerðarlist,“ sagði forsprakkinn Jón Þór Birgisson, eða Jónsi, í tilkynningu og líkti ilminum við tónlist. „Þetta er opinn vettvangur fyrir tilraunastarfsemi og uppgötvanir, og því meira sem þú blandar saman þeim mun betri niðurstöðu munt þú sennilega fá.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigur Rós setur nafn sitt við kannabistengdar vörur. Árið 2017 var hljómsveitin í samstarfi við Lord Jones með kannabissælgætið Wild Sigurberry, hlaup með ýmsu berjabragði, unnið úr THC og CBD og því ekki löglegt á Íslandi.