Með­limir hljóm­sveitarinnar Sigur Rós í­huga að flytja af landi brott vegna mála­reksturs yfir­valda gegn þeim. Í við­tali við breska blaðið Guar­dian segja þeir yfir­vofandi réttar­höld hafa orðið til þess að þeir hafi misst trúnna á landinu.

,,Við eyddum mörgum árum í að aug­lýsa landið og nú er komið fram við okkur eins og glæpa­menn,” sagði Jónsi í sam­tali við Guar­dian.

Endur­skoðandinn brást

Nú­verandi og fyrrum með­limir hljóm­sveitarinnar, þeir Jón Þór Birgis­­son, Orri Páll Dýra­­son, Georg Holm og Kjartan Sveins­­son, hafa viður­kennt að hafa svikist undan sam­tals 150 milljónum króna á árunum 2011 til 2014. Þeir segja hins vegar að það hafi verið gert án þeirra vitundar.

,,Við erum tón­listar­menn, við réðum fólk sem við héldum að væri það besta í heimi. Og hann brást okkur,” sagði Georg um fyrrum endur­skoðanda hljóm­sveitarinnar, Gunnar Ás­geirs­son.

Máli Sigur Rósar var vísað frá héraðs­dómi á síðasta ári á grund­velli laga um tvö­falda refsingu. Hljóm­sveitin hafði þegar greitt um­rædda skatta auk vaxta og sektar fyrir skatt­laga­brotin.

Yfir­völd á­frýjuðu málinu til Lands­réttar sem síðar sendi málið aftur til héraðs­dóms til efnis­legrar með­ferðar. Ekki liggur fyrir hve­nær málið verður tekið þar upp að nýju.

Sigur Rós hefur auglýst Ísland um allan heim og er ein ástsælasta hljómsveit landsins.

Óttast fangelsi

Í sam­tali við Guar­dian segir hljóm­sveitin dóm­stóla lík­lega til að krefjast annarrar sektar. Sú sekt myndi að minnsta kosti vera tvö­falt hærri en and­virði brots þeirra í heild sinni.

Ein­hver fyrrum með­lima hljóm­sveitarinnar kveðst ekki hafa slíka fjár­muni og óttast því fangelsis­vist. Ekki kemur fram hvaða með­limur það sé en Kjartan hætti í hljóm­sveitinni árið 2013 og Orri árið 2018.

Ekki hafnir yfir lög

,,Við erum ekki að segja að við höfum ekki gert neitt rangt, þrátt fyrir að við höfum ekki vitað af því á þeim tíma,” sagði Georg. Hljóm­sveitin hafi síðar gert allt sem í hennar valdi stendur til að breyta rétt, komast að því hvað kom fyrir og endur­greiða peningana.

,,En nú er verið að fara með okkur fyrir rétt fyrir sama hlut aftur. Við erum ekki hafnir yfir nein lög á Ís­land, en lögin eru ein­fald­lega ekki rétt.”