Nú standa yfir stjórnar­myndunar­við­ræður milli Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokksins og Fram­sóknar­flokksins. Katrín Jakobs­dóttir ræddi við frétta­menn fyrir utan ráð­herra­bú­staðinn eftir að fundi formanna flokkanna lauk. Hún segir góðan gang í við­ræðunum sem halda á­fram af fullum krafti eftir helgi.

„Þetta var bara góður fundur eins og fyrri fundir. Í sjálfu sér engar nýjar fréttir annað en það að við höldum á­fram okkar vinnu við að fara yfir stóru málin. Það er auð­vitað þannig að kosningarnar, niður­staða þeirra var að þessi ríkis­stjórn héldi sínum meiri­hluta og vinna okkar núna snýst mest um það að endur­nýja okkar sam­starf og fara yfir stóru við­fangs­efnin fram undan, líka okkar á­herslur.“

Hægt að deila um hvað er form­legt og ó­form­legt

Að­spurð um það hvort við­ræðurnar séu ó­form­legar eða form­legar segir Katrín stöðuna þá að for­menn nú­verandi stjórnar­flokka eru að ræða sama. „Það má deila um það hvað er ó­form­legt og form­legt en í öllu falli þá sitjum við hérna þrjú í þessu núna og höldum því á­fram enn um sinn með þeim hætti.“

Katrín segir að í við­ræðunum hafi verið rætt um hugsan­legar breytingar á ráðu­neytum. „Við erum að velta fyrir okkur fyrst og fremst endur­skoðun á verk­efnum og færslu verk­efna og skoða hvaða leiðir eru færar í því. Það skiptir auð­vitað miklu máli að á­herslur ríkis­stjórnar hverju sinni birtist í verk­efna­skipan stjórnar­ráðsins.“ Hún segist ekki geta úti­lokað að breytingar verði gerðar á skipu­lagi ríkis­stjórnarinnar nái flokkarnir saman um nýja ríkis­stjórn.

Bjarni Bene­dikts­son for­maður Sjálf­stæðis­flokksins að fundi loknum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún segir góðan anda í við­ræðunum en væntan­lega verði hlé á þeim um helgina. „Við munum væntan­lega taka okkur hlé um helgina, bæði til að ræða við okkar fólk. Við erum öll með á­kveðin heima­verk­efni núna og svo munum við taka upp þráðinn eftir helgi,“ sagði Katrín.

Halda á­fram eftir helgi

Samninga­við­ræðurnar munu halda á­fram eftir helgi. „Við ætlum að­eins að halda á­fram enn um sinn, við erum ekki alveg búin með það verk­efni sem við settum okkur, að fara yfir þessar stóru línur. Ég í­mynda mér það að ef það fer eins og ég vona að það fari, að það fari vel og við náum saman þá er hægt að hefja vinnu við ritun stjórnar­sátt­málans.“

Katrín segir við­ræðurnar þrí­þættar. „Við erum að tala um stóru línurnar. Þetta er þrennt: Þetta eru flöggin sem þessi ríkis­stjórn með sínum endur­nýjuðu heitum myndi vilja reisa. Það eru við­fangs­efni sem blasa við alveg óháð hvaða ríkis­stjórn er, kjara­samningar og fleira sem blasa við. Til dæmis staðan á vinnu­markaði, staða ríkis­fjár­mála. Þetta eru við­fangs­efni sem blasa við hverjum þeim sem tekur við og hvernig fólk ætlar að takast á við það, það er númer tvö. Í þriðja lagi á­greinings­mál sem þarf að leysa.“

Í kosningunum bætti Fram­sóknar­flokkurinn við sig fimm þing­sætum og er með þrettán, Sjálf­stæðis­flokkur stóð í stað með 16 þing­menn og Vinstri græn töpuðu þremur og eru nú með átta þing­menn. Katrín segir að skipun verk­efna verði að ein­hverju leyti endur­speglun á fjölda þing­manna flokkanna þriggja.

„Á­stæðan fyrir því að stjórnar­sam­starfið gekk mjög vel á síðasta kjör­tíma­bili var okkar nálgun í upp­hafi þess tíma­bils. Við nálgumst öll verk­efni sem jafningjar og þau auð­vitað endur­speglist styrk­leika­hlut­föll að ein­hverju leyti í skipan verk­efni. Þannig nálgumst við þetta líka núna, við erum bara þrír flokkar sem sitjum við borðið og ræðum saman, í raun og veru á þessum grunni,“ sagði Katrín um þær línur sem hafa verið lagðar í samninga­við­ræðunum.

Á­fram á­greinings­mál

„Það eru auð­vitað alltaf á­taka­mál milli þessara flokka, að sjálf­sögðu. Það sem við höfum lagt upp úr er í raun og veru ekki að reyna að slétta yfir þann á­greining heldur ein­mitt að ræða okkur til botns í þeim á­greinings­málum. Það gekk vel á síðasta kjör­tíma­bili, við vitum hins vegar alveg að það eru á­fram á­greinings­mál og það er verk­efni að ræða okkur á­fram til botns í því. Eins og ég segi, þetta var mjög góður fundur núna og allir vel stemmdir fyrir þessu sam­tali. Ég held að við séum að þokast í á­fram jafnt og þétt,“ sagði for­sætis­ráð­herra.

Katrín fór á fund Guðna Th. Jóhannes­sonar í dag. „Ég fór yfir stöðuna í við­ræðunum með for­setanum, þetta er auð­vitað þannig staða að vegna þess að ríkis­stjórnin heldur sínum meiri­hluta þá erum við ekki starfs­stjórn í raun og veru, við erum með fullt um­boð. Hann er að sjálf­sögðu upp­lýstur, fundurinn var fyrst og fremst til þess.“

Að loknum fundi for­mannanna fór Katrín á fund með þing­flokki Vinstri grænna og segist hafa fullt um­boð frá flokknum.

„Ég fékk fullt um­boð til þess að fara af stað í þetta sam­tal. Síðan kemur að því auð­vitað að ég held mínum þing­flokki upp­lýstum með reglu­bundnum hætti en á endanum, ef þetta verður að veru­leika, þá þarf auð­vitað að sam­þykkja það af við­eig­andi stofnunum flokksins, sem er flokks­ráð og þing­flokkur,“ sagði Katrín að­spurð um hvert fram­haldið yrði innan flokksins ef samningar næðust milli flokkanna þriggja um nýja ríkis­stjórn.

„Þetta gengur nú á­­gæt­­lega,“ sagði Sigurður Ingi Jóhanns­­son for­­maður Fram­­sóknar­­flokksins að fundi loknum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sigurður Ingi Jóhanns­son for­maður Fram­sóknar­flokksins ræddi einnig við frétta­menn að fundi loknum.

„Þetta gengur nú á­gæt­lega,“ sagði hann. Að­spurður segir hann góðan gang í við­ræðunum. „Við erum á­nægð með hvernig sam­talið gengur. Við höfum fengið inn­legg frá fólki sem er ekki í við­ræðunum.“
„Við til­kynnum það sjálf­sagt ef við hefjum form­legar við­ræður um stjórnar­sátt­mála. Nú erum við að átta okkur á stöðunni og fara yfir þau sjónar­mið sem við vitum að eru ólík hjá flokkunum. Og sam­ræma líka við niður­stöður kosninganna og þeirra á­herslna sem lagt var á­herslur þar,“ sagði hann að­spurður um hvort við­ræðurnar væru form­legar.

Sigur Fram­sóknar­flokksins spilar inn í

Eins og áður var nefnt vann Fram­sóknar­flokkurinn mikinn sigur í kosningunum á laugar­daginn. „Það liggur í hlutarins eðli að ríkis­stjórnin vann kosningarnar, mest á þeim grunni sem við Fram­sóknar­menn lögðum á­herslu á. Þess vegna er eðli­legt að þær á­herslur rati inn í okkar sam­tal.“

Upp­stokkun ráðu­neyta sé hluti af því sam­tali. „Hluti af því að ræða hvernig næstu fjögur ár verða eru þau sóknar­færi sem eru nú í sam­fé­laginu. Þau sóknar­færi sem eru núna en voru ekki fyrir fjórum árum, þar af leiðandi hvernig við náum því fram meðal annars með upp­byggingu kerfisins, ráðu­neytum, stofnunum og fleira, það er hluti af sam­talinu.“