Eftir að jeppa er ekið yfir sprungu í Lang­jökli í janúar 2010 á sér stað slys. Móðir og sjö ára sonur hennar falla niður í sprungu og festast á dýpi sem svarar til átta hæða húss. Þegar þyrla og björgunar­sveitir koma á vett­vang virðast allar bjargir bannaðar.

Björgunar­menn síga niður í ó­trú­lega þrönga sprunguna þar sem þeir verða að at­hafna sig á hvolfi og í and­nauð. Þeir geta talað við drenginn en ná ekki til hans. Stöðugt dregur af honum vegna of­kælingar. Móðirin svarar ekki. Hér heyja björgunar­menn kapp­hlaup við tímann – sann­kallaðan líf­róður.

,,Þegar við vorum alveg að koma upp á brúnina þá læt ég hann [innsk. blm. drenginn] vita. Hann rétt opnar augun á mig og lokar þeim aftur, segir Þórður Guðnason björgunarsveitarmaður sem seig öfugur niður í 25 metra djúpa sprungu (á við átta hæða hús) þar sem hann bjargaði lífi 7 ára drengs í janúar 2010.

Barnið hafði fallið ásamt móður sinni niður í sprunguna en hún lést. Eftir það var afar tvísýnt um hvort tækist að bjarga lífi drengsins. Þórður og Kolbeinn Guðmundsson sigur báðir öfugir – hvor í sínu lagi – til að freista þess að bjarga drengnum og koma móðurinni upp.

Í Út­kalls­þættinum á Hring­braut talar Óttar Sveins­son við Þórð Guðna­son, björgunar­sveitar­mann frá Akra­nesi, sem lýsir því þegar hann seig öfugur niður í sprunguna að bjarga drengnum á síðustu stundu. Hér að neðan er hægt að horfa á allan þáttinn.