Sig­rún Þuríður Geirs­dóttir varð í nótt fyrsta konan til að synda svo­kallað Eyja­sund. Sig­rún hóf sundið klukkan 01.10 í nótt frá Eiðinu á Heima­ey og synti síðan rúma ellefu kíló­metra til Land­eyja­sands. Sundið tók hana alls fjórar klukku­stundir og 31 mínútu.

„Mér leið mjög vel í byrjun sundsins en sjávar­föllin, að sögn skip­stjórans, voru ein­kenni­leg. Því í austur­fallinu rak mig til vesturs en ekki austur. Mér varð ó­glatt og kastaði að­eins upp en annars leið mér á­gæt­lega. Hausinn á mér var góður allan tímann og reyndi ég að hugsa alltaf já­kvætt, ég söng í huganum og var alltaf að hugsa um hversu langt ég var komin miðað við önnur sund sem ég hef synt. Vega­lengdin var rúmir 11 kíló­metrar og það tók mig 4:31 að synda þetta sem var mun skemur en ég hafði á­ætlað,“ segir Sig­rún Þ. Geirs­dóttir.

Í til­kynningu kemur fram að sundið hafi gengið mjög vel og að veður­skil­yrði hafi verið Sig­rúnu hag­stæð. Fyrstu tvo tímana fylgdu henni höfrungar og síðar sýndu mávar, fýlar og lundar sundi hennar mikinn á­huga.

Sig­rún er fimmti Ís­lendingurinn til að synda Eyja­sundið. Fylgdar­fólk Sig­rúnar á sundinu voru Haraldur Geir Hlöð­vers­son úr Vest­manna­eyjum, Jóhannes Jóns­son eigin­maður Sig­rúnar og Harpa Hrund Bernd­sen. Björgunar­sveitin Dag­renning frá Hvols­velli tók á móti Sig­rúnu þegar hún kom í land.

Ætla yfir Ermarsundið

Sig­rún er ekki óvön því að synda langar vega­lengdir. Árið 2015 varð hún fyrsta ís­lenska konan til að synda yfir Ermar­sundið. Sig­rún synti 34 kíló­metra leið frá Dover á Eng­landi til Cap Gris-Nez í Frakk­landi á 22 klukku­stundum. Í septem­ber næst­komandi mun Sig­rún þreyja sundið á ný yfir Ermar­sundið. Í þetta skiptið mun hún synda boð­sund í hópi af­reks­kvenna sem kalla sig Marg­lytturnar en þær vilja vekja at­hygli á hnignandi líf­ríki sjávar vegna mengunar og safna um leið á­heitum fyrir um­hverfis­sam­tökin Bláa herinn.