Sigríður Á. Andersen, þingkona og fyrrverandi dómsmálaráðherra, ritar grein í Morgunblaðið í dag í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í dag. Í grein sinni fjallar Sigríður um fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og setur það í samhengi við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að því að skipan hennar á dómurum við Landsrétt hefði ekki verið samkvæmt lögum.
Hún segir í grein sinni að viðbrögð samfélagsins við dómnum hafi verið henni „sár vonbrigði“ og segir dóminn vera „umboðslaust pólitískt at“ frá „pólitískt kjörnum dómurum í Strassborg“.
Sigríður fer í grein sinni yfir sögu flokksins og hvað hafi orðið til þess að hann hafi náð svo háum aldri hér á landi. Hún segir að til að endast í stjórnmálum þurfi bæði flokkar og fólki sem sé í þeim að hafa erindi. Þannig hafi Sjálfstæðisflokkurinn átt erindi við landsmenn árið 1929 sem hafi verið að „stuðla að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Fullvalda ríki og fullvalda einstaklingar. Það var erindi Sjálfstæðisflokksins árið 1929.“
Sigríður spyr hvort þeim markmiðum hafi nú verið náð og veltir því fram hvort erindi flokksins við landsmenn sé lokið. Hún segir að þó að í dag sé Ísland fullvalda og sjálfstæð þjóð sé það ekki tryggt að „þessir jákvæðu eiginleikar sem við búum við tapist ekki eða skerðist á einhvern hátt.“
Sjálfstæðisflokkurinn eigi enn fullt erindi við landsmenn
Hún segir að vilji menn ekki tapa frelsinu verði að standa vörð um það og því eigi Sjálfstæðisflokkurinn enn fullt erindi við landsmenn. Hún segir að flokkurinn hafi frá upphafi lagt áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir og að fátt sé „mikilvægra .. lítilli eyþjóð“. Þó verði á sama tíma að gæta þess að hafa eigin hagsmuni í fyrirrúmi því að engin önnur þjóð muni gera það fyrir okkur, þó hún væri okkur vinveitt.
„Með auknu mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á öllum sviðum verður það að vera sérstakt markmið stjórnmálamanna að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn á hér einnig brýnt erindi,“ segir Sigríður í grein sinni.
Að því loknu fjallað Sigríður um að í opnunarhópi Landsréttar í byrjun síðasta ár hafi hún spurt viðstadda hvor Ísland væri „mögulega farsælasta þjóðfélag veraldarsögunnar“. Hún segir að svarið sé eflaust flókið og spurningunni verði líklega ekki svarað í eitt skipti fyrir öll.
Segir það gegn öllum rökum að Íslendingar lúti fyrirmælum annarra
Þá segir Sigríður frá því að hún sé stolt af því að hafa verið alin upp á „miklu sjálfstæðisheimili“ og að þar hafi verið lögð mikil áhersla á að bera virðingu fyrir bæði sjálfstæði einstaklingsins og þjóðarinnar.
„Það er þannig að á meðan við ákveðum að deila lögunum þurfum við að hafa sjálfdæmi um hver lögin eru og hver setur þau. Það er því gegn öllum rökum að sjálfstæðir einstaklingar í sjálfstæðu ríki lúti fyrirmælum annarra,“ segir Sigríður og segir svo að viðbrögð stjórnmálanna, fjölmiðla og réttarkerfisins við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið henni „sár vonbrigði“.
„Þess vegna voru mér það sár vonbrigði að sjá íslensk stjórnmál, fjölmiðla og réttarkerfið falla á kné þegar erlend nefnd sem ekkert umboð hefur frá sjálfstæðum Íslendingum gerði atlögu að dómskerfi okkar Íslendinga. Aldrei áður í sögu lýðveldisins höfðu handhafi framkvæmdavalds, handhafar löggjafarvalds og handhafar dómsvalds á Íslandi, auk jafnvel forseta Íslands umfram skyldu, fest nýja stofnun í sessi með jafn afgerandi hætti. Landsréttur og dómararnir fimmtán sem réttinn skipa hafa einstakan stuðning þeirra er málið varðar.
Hún segir að hún treysti því að þegar frá líði verði litið á „þessa atlögu frá pólitísk kjörnum dómurum í Strassborg með sömu augum og minnihlutinn gerði. Sem umboðslaust pólitískt at.“