Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur óskað eftir því að fá aðild þriðja aðila að Landsréttarmálinu sem rekið er fyrir efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar sem fylgir fjölda nýrra málsskjala ríkisins sem send voru dómstólnum áður en frestur til slíkrar gagnaframlagningar rann út í gær.

Samkvæmt reglum dómsins er heimilt að bjóða aðildarríki sem ekki er aðili að málaferlunum eða manni sem málið varðar og ekki er kærandi að leggja fram skriflegar athugasemdir eða taka þátt í munnlegum málflutningi.

Sigríður segir í yfirlýsingu sinni að henni hafi borist greinargerð kæranda í málinu í árslok. Í henni komi fram alvarlegar ásakanir á hendur henni og hún hafi í kjölfarið, þann 6. janúar síðastliðinn sent dómstólnum erindi með beiðni um að hún fengi aðild að málinu.

Enginn 24 manna listi gerður

Eins og Fréttablaðið greindi frá óskaði MDE meðal annars upplýsinga frá ríkinu um lista yfir tuttugu og fjóra umsækjendur sem þáverandi dómsmálaráðherra kvaðst, í svörum sínum um málið á Alþingi, hafa valið dómaraefni sín úr, í stað þess að skipa þá fimmtán sem dómnefndin taldi hæfasta. Er ríkið spurt hvort ráðherra hafi búið slíkan lista til. Hafi hann gert það er óskað afhendingar á honum og sönnunar á því hvenær hann var búinn til. Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um hvaða rök ráðherra færði fyrir vali á dómaraefnunum fimmtán úr þeim hópi sem var á fyrrnefndum lista.

Það er dómsmálaráðuneytið sem er til svara um þetta efni. Fram kemur í svari ráðuneytisins að enginn formlegur 24 manna listi hafi verið gerður. Ekki hafi hins vegar farið á milli mála umsækjendur væru meðal þeirra tuttugu og fjögurra sem ráðherra teldi koma til greina. Ráðherra hefði farið yfir þetta á fundum sínum með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Auk þeirra fimmtán sem dómnefndin hefði talið hæfasta væru níu umsækjendur til viðbótar, með áralanga dómarareynslu efstir í huga ráðherra, Eru nöfn þeirra tiltekin í svari ráðuneytisins til dómsins. Þau eru Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Bogi Hjálmtýsson, Hildur Breim, Jón Finnbjörnsson, Jónas Jóhannsson, Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Bragadóttir og Sandra Baldvinsdóttir.  

Fjögur þeirra sem feitletruð eru, voru skipuð dómarar.

Um rök ráðherra fyrir vali á þeim fimmtán sem skipaðir voru úr 24 manna hópnum segir að ráðherra hafi ekki þótt fýsilegt að nota sambærilega reiknireglu og dómnefndin beitti.  Val ráðherra hefði auk mats dómnefndarinnar byggst annars vegar á þörf hins nýja dómstigs fyrir reynslumeiri dómara og hins vegar á þeim ásetningi ráðherra að framlagður listi yrði staðfestur af Alþingi. Hið síðarnefnda byggði ráðherra á umræðum á þingi um mikilvægi þess að kynjahlutföll í dóminum yrðu sem jöfnust.

Áhersla ráðherra á dómarareynslu vöktu athygli á sínum tíma enda hlaut Eiríkur Jónsson prófessor, ekki skipun þrátt fyrir að vera í hópi fimmtán hæfustu að mati dómnefndar en hann hafði meiri dómarareynslu en þrír þeirra sem á endanum voru skipaðir.

Dómar leiði ekki sjálfkrafa til endurupptöku

Dómurinn spyr einnig hvort gildandi málsmeðferðarheimildir veiti heimild til endurupptöku sakamála í kjölfar niðurstöðu dómsins í Strassborg. Í svari dómsmálaráðuneytisins segir að dómur MDE yrði ekki einn og sér til þess að mál verði endurupptekið nema eru skilyrði fyrir endurupptöku mála rakin og fullyrt að dómur MDE geti orðið til þess að mál sé endurupptekið ef í honum felist að eitthvert lagaskilyrða teljist uppfyllt. Meta þurfi hvert og eitt mál sjálfstætt.

Viðbrögð við samsæriskenningum

Auk yfirlýsingar Sigríðar er yfirlýsing Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, meðal gagna sem ríkið sendi til efri deildar MDE í gær. Er yfirlýsingunum ætlað að sýna fram á að ásakanir um vonda trú ráðherrans og samsæriskenningar um spillingu eigi ekki við rök að styðjast.

Yfirlýsing Brynjars Níelssonar til dómsins ber yfirskriftina: Viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem fram koma í greinargerð lögmanns kæranda.

Í upphafi yfirlýsingarinnar vísar Brynjar til fullyrðinga í greinargerð kæranda um pólitísk hrossakaup innan Sjálfstæðisflokksins og misnotkun valds dómsmálaráðherra og meintan samning Brynjars og Sigríðar um oddvitasæti á framboðslista gegn dómarastöðu fyrir eiginkonu Brynjars, Arnfríði Einarsdóttur.

„Þessar aðdróttanir og samsæriskenningar eru hugarburður og eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hér verið að reyna að skapa andrúmsloft spillingar og hrossakaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt,“ segir í yfirlýsingu Brynjars.

Brynjar vísaði til aðdraganda þess að Sigríður varð ráðherra haustið 2016 þegar hann var ofar henni á lista. „Ástæða þess [...] voru kynjasjónarmið en formaður Sjálfstæðisflokksins hafði áður sagt að við myndun ríkisstjórnar yrði kynjahlutfall flokksins eins og jafnt og kostur væri.

Brynjar segist engan samning hafa gert við Sigríði, konu sinni, viðvikjandi og hann hafi engin afskipti haft af meðferð málsins á Alþingi og ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu þingsins.

Brynjar lýsir aðdraganda kosninganna haustið 2017 en þá fór ekkert prófkjör fram í Sjálfstæðisflokknum enda báru kosningarnar brátt að.

„Kjörnefnd hugðist hafa óbreytta röðun efstu manna listans frá síðustu kosningum 2016 þannig að ég tæki oddvitasætið, sem Ólöf Nordal var í áður, og Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra yrði í öðru sætinu. Ég lagði hins vegar fram tillögu um að dómsmálaráðherra yrði oddviti og ég í öðru sæti listans, sem var samþykkt. Þessi tillaga mín virðist vera kveikjan að framangreindum aðdróttunum og samsæriskenningum kæranda, eða lögmanns hans, en lögmaðurinn skrifaði grein undir eigin nafni í víðlesnasta dagblaði Íslands snemma í júlí 2018 þar sem þessar aðdróttanir komu fram.“

Brynjar segir fráleitt að dylgja um samning milli hans og dómsmálaráðherra um dómaraembætti fyrir eiginkonu hans gegn oddvitasæti ráðherrans fyrir næstu kosningar sem þá stóðu ekki fyrir dyrum fyrr en 2020 þegar kjörtímabili ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar átti að ljúka. „Það var einfaldlega ekki á okkar valdi að semja um slíkt af augljósum ástæðum.“

Brynjar rekur svo ástæður þess að hann lagði til að Sigríður yrði oddviti kjördæmisins fyrir kosningarnar haustið 2017. Vísar hann annars vegar til töluverðs þrýstings innan flokksins um að kona yrði oddviti í einhverju kjördæma landsins en fyrir lá að karlmenn myndu leiða öll hin kjördæmin. Hins vegar var Sigríður þegar í ráðherraembætti og því eðlilegt að hún leiddi listann í kjördæminu.

Í lok yfirlýsingar Brynjars segir: „Að lokum er rétt að taka fram að ég starfaði sem lögmaður á Íslandi í áratugi fram að lokum árs 2015. Ég var einnig formaður Lögmannafélags Íslands frá 2010 til 2012. Ég hef ekki á öllum þeim lögmannsferli orðið vitni að slíkum rakalausum aðdróttunum lögmanns sem koma fram í greinargerð lögmanns kæranda þessa máls.“