Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svokallaða komi henni ekki á óvart og að hún staðfesti það sem hún hafi áður sagt um málið.
Það sé pólitískt at dómstólsins bæði gegn henni og í vegferð dómstólsins að víkka gildissvið Mannréttindasáttmálans. Hún segir Alþingi sýnd mikil vanvirðing í niðurstöðunni.
„Eins og þegar ég sagði þegar ég sat málflutninginn í Strassborg þá nefndi ég það að ég ætti ekki von á öðru en að niðurstaða undirréttarins yrði staðfest,“ segir Sigríður Andersen í samtali við Fréttablaðið í dag.
Sigríður segir að ekki megi gleyma því að yfirdeildin er ekki dómstóll í hefðbundnum skilningi.
„Það var mjög vel staðið að málflutningi fyrir íslenska ríkið, með framúrskarandi lögmanni, og ekkert upp á það að klaga. Fræðilega var það málefnalegt og allt í samræmi við fræði. En ég spáði því nú samt að þetta yrði staðfest. Ég hef talað um að þetta sé pólitískt at í Strassborg og sannfærist enn frekar um það þegar ég les þessa niðurstöðu,“ segir Sigríður.
Ekki ástæða til að veita bætur
Sigríður segir að hún hafi ekki enn komist yfir allan dóminn en geti þó tjáð sig nú um einstaka atriði í dómi.
„Ég get nefnt tvennt. Það er annars komist að þeirri niðurstöðu að maður hafi fengið fangelsisdóm eftir óréttláta málsmeðferð fyrir dómi. Hann hafi ekki notið réttláta málsmeðferð og helstu mannréttinda en samt sem áður er ekki ástæða til að dæma honum neinar bætur. Það er svo hitt sem er nýtt að það er sérstaklega tekið fram í þessari niðurstöðu sem var ekki í undirrétti að þessi niðurstaða ætti ekki að vera túlkuð þannig að íslenska ríkið væri skyldugt til að taka upp öll sambærileg mál sem hafa verið kveðin upp við Landsrétt. Sem mér finnst benda til þess að þetta sé pólitískt at. Annars vegar gagnvart mér persónulega og hins vegar í þeirri vegferð sem dómstóllinn er í og hefur verið í þessi misseri og undanfarin ár. Vegferð sem lýtur að því að víkka út gildissvið mannréttindasáttmála Evrópu, breyta inntaki hans með dómafordæmi. Sú vegferð sætir miklum ámælum og mikilli gagnrýni þátttökuríkja,“ segir Sigríður.
Alþingi sýnd mikil vanvirðing
Sigríður segir það einnig umhugsunarvert að þótt það sé þannig að dómari eigi að ljúka ágreiningi í nokkru máli þá sé það þannig undanfarið að oft kvikna upp fleiri ágreiningsmál þegar niðurstaða er komin fram. Hún segir að henni finnist í niðurstöðu yfirdeildar Alþingi Íslendinga sýnd mikil vanvirðing.
„Í þessari niðurstöðu er Alþingi, sem er æðsta stofnun Íslendinga, sýnd ótrúleg vanvirðing og það er gert úr því mikið að það hafi ekki verið kosið um landsréttardómarana einn og einn, heldur saman. Það var í samræmi við þingskapalög og var ekki á mínu forræði, en í öllu falli finnst mér koma fram efst á blaðsíðu sex, og ég kannski átta mig ekki á því hvort þetta á við alla dómarana eða einn. En það kannski skiptir ekki máli því efnislega af því í niðurstöðunni er tekið fram að það eigi ekki að líta til þess að eigi að endurupptaka álíka mál,“ segir Sigríður.
Hæstiréttur hafi lokaorðið
Hún segir þó ekki mega gleyma því að á Íslandi er búið að kveða upp dóm um dómarana um að þeir hafi verið löglega skipaðir og það varði ekki skipunina sjálfa að eitthvað hafi verið aðfinnsluvert í aðdraganda skipunarinnar.
„Dómstóllinn ætlar ekki að láta ríkjunum það eftir að meta sjálf sína stjórnskipan. Hér er reynt að hafa afskipti af stjórnskipan Íslands. Þetta breytir því ekki að Hæstiréttur hefur síðasta orðið um það hvort dómarar eru löglega skipaðir hér á landi og hann hefur kveðið upp dóm um það. Enda segir í niðurstöðunni að þetta hafi engin réttaráhrif á Íslandi. Ef þetta væri svona stórkostlegt mannréttindabrot hefði maður í fyrsta lagi haldið að maðurinn fengi dæmdar bætur og svo að menn þyrfti að huga að öðrum í sambærilegri stöðu, en það er auðvitað ekki þannig. Bæði því þau segja það en líka því íslensk lög kveða á um það með hvaða hætti eru endurupptekin og það er íslenskra dómstóla að meta það,“ segir Sigríður.
Hún segir það skýrt í niðurstöðu yfirdeildarinnar að það eigi ekki endilega að endurupptaka málið.
„Þetta finnst mér benda til þess að þessi niðurstaða sé enn ein pólitísku skilaboðin sem þessi dómstóll vill senda til Íslands og til annarra landa þar sem áhyggjur eru af lýðræði,“ segir Sigríður að lokum.