Fimmtíu og sjö ára gömul kona í New Hamps­hire-fylki í Banda­ríkjunum eignaðist son í síðustu viku, sem gerir hana að einni elstu ný­bökuðu móður Banda­ríkjanna.

Barbara Higgins þurfti að láta fjar­lægja úr sér heila­æxli meðan á með­göngunni stóð en 13 ára dóttir hennar lést úr heila­æxli árið 2016.

Higgins og maður hennar Kenny Banz­hoff , sem er 65 ára, eiga eina aðra dóttur en eftir að þau misstu Molly dóttur sína hugsuðu þau mikið um það hvort þau ættu að eignast annað barn. Loks á­kváðu þau að leita til lækna­stofu í Boston sem sér­hæfir sig í tækni­frjóvgunum.

„Ég ætla ekki að ljúga, ég sit hérna á mínum aldri og hugsa ‚Ég var að eignast barn‘. Ég er bæði hrædd og stressuð, en ég er mjög spennt,“ segir Higgins í við­tali við staðar­blaðið Concord Monitor.

Hjónin Barbara Higgins og Kenny Banz­hoff sýna soninn Jack, sigri hrósandi.
Fréttablaðið/Getty

Vill gefa eldri konum von

Higgins er mjög virkur hlaupari og setti fylki­s­met í sprett­hlaupi þegar hún var í mennta­skóla. Hún stundar núna cross­fit og segist aldrei hafa verið í betra formi, með­gangan hafi því ekki verið mikið mál.

Fjöl­skylda Higgins hefur gengið í gegnum ýmis­legt en að við­bættum dóttur­missinum og heila­æxli Higgins er eigin­maður hennar nýrna­veikur og þurfti hann að gangast undir nýrna­skipti.

Higgins segist ekki hafa ætlað sér að slá nein met með fæðingunni en henni þyki það þó engu að síður gaman að vera elsta konan í New Hamps­hire sem fæðir barn.

„Í­þrótta­maðurinn í mér elskar þá stað­reynd. Ég elska líka að ég geti gefið konum sem eru að eldast og líður eins og þær séu að renna út á tíma smá vonar­neista. Ég vil að eldri konur líti á mig og hugsi ‚Sjáðu, hún gat það‘,“ segir Higgins.