Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri Grænna, varði titil sinn í kótilettuáti á dvalarheimilinu Hrafnistu þar sem blásið var til kótilettuveislu á afmæli Sjómannadagsráðs. Hafði hann algera yfirburði yfir aðra keppendur, og sá eini sem náði að klára 1200 gramma skammt á 5 mínútum.

Ólafur var saddur og sæll þegar Fréttablaðið náði tali af honum eftir sigurinn og vottaði ekki fyrir magaverk. „Mér líður ljómandi vel, en ég þarf líklega ekki að borða fyrr en einhvern tímann á morgun,“ segir hann. „Mér finnst lambakjöt voðalega gott, hvort það séu kótilettur sem slíkar skiptir ekki öllu máli.“

Á meðal keppinauta Ólafs voru kollegar hans á þingi, Sjálfstæðismennirnir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason. Burðugir að vöxtum en áttu aldrei möguleika í Ólaf. Íþróttafréttamaðurinn skeleggi, Hörður Magnússon, lýsti viðburðinum með miklum tilþrifum.

Ljóst er að Ólafur hefur meðfæddan hæfileika til kappáts, en áhorfendur fylgdust með honum naga letturnar inn að beini með lítilli fyrirhöfn. Hefur hann aðeins tekið þátt í tveimur kappátum um ævina, kótilettuveislunni í ár og í fyrra, þegar hann lagði meðal annars Hjalta Úrsus að velli. Ólafur vill lítið gefa upp um hver sé lykillinn að sigri. „Ætli það sé ekki bara að mæta og hafa gaman að þessu,“ segir hann og glottir við tönn.

Ólafur segist hafa haft gaman að þessum keppnum á Hrafnistu en að það sé ekkert sérstakt kappsmál fyrir sig að vinna. „Á næsta ári hljóta þeir að geta fundið einhvern annan en mig til að keppa,“ segir hann. Ólafi verður þó varla kápa úr því klæðinu því að hann hefur sett viðmiðið hátt. Má því ætla að fleiri vilji fá að reyna sig við hann.

Út frá lýðheilsusjónarmiðum kemur nokkuð á óvart að Ólafur skuli hafa tekið þátt en eins og margir vita er hann öldrunarlæknir að mennt. „Þetta er alls ekki hollt til lengdar,“ segir hann. „Sennilega er óhætt að gera þetta einu sinni á ári, en alls ekki á hverjum degi.“

Hrafnista kótilettuveisla 06.jpg

Hrafnista kótilettuveisla 02.jpg

Hrafnista kótilettuveisla 10.jpg

Hrafnista kótilettuveisla 11.jpg