„Hinir nýju þing­menn Mið­flokksins hafa verið pólitískir banda­menn okkar á Al­þingi frá því strax eftir kosningar og mikill sam­hljómur verið milli þeirra og þing­manna flokksins,“ segir Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, í bréfi til flokks­manna sinna, þar sem hann upp­lýsir þá um nýjustu vendingar innan flokksins. 

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá hafa Ólafur Ís­leifs­son og Karl Gauti Hjalta­son gengið til liðs við Mið­flokkinn. Þeir voru báðir þing­menn Flokks fólksins en reknir þaðan eftir Klausturs­málið, og hafa síðan þá starfað sem ó­háðir þing­menn. Mið­flokkurinn verður núna þriðji stærsti flokkur á Al­þingi og stærsti flokkur stjórnar­and­stöðunnar, með níu þing­menn innan­borðs. 

Sig­mundur segir í bréfi sínu að nú bætist við tveir gríðaröflugir þing­menn við þing­flokkinn. „Þeir Karl Gauti og Ólafur hafa gert grein fyrir því að þeir gangi til liðs við flokkinn á grund­velli þeirra mál­efna sem hann stendur fyrir og vegna þess með hvaða hætti við vinnum að stjórn­málum. Það er með á­herslu á skyn­semis­hyggju og lausnir auk festunnar sem þarf til að komast í gegnum hindranir og standa við lof­orð,“ segir hann í bréfinu. 

Geti leitt til mikilsverðra framfara fyrir Íslendinga

Ólafur og Karl Gauti hafi báðir verið pólitískir banda­menn Mið­flokksins á Al­þingi, strax eftir kosningar. Sjálfur hafi Sig­mundur unnið að stórum málum með Ólafi, og verið sessu­nautur Karls Gauta á þingi. 

„Við höfum flutt mál saman og verið traustir sam­herjar í stjórnar­and­stöðu. Raunar höfum við Ólafur verið sam­taka í bar­áttu fyrir stórum málum á borð við endur­skipu­lagningu fjár­mála­kerfisins í um ára­tug og ég náði strax mjög vel saman við Karl Gauta sem var sessu­nautur minn á fyrsta þingi þessa kjör­tíma­bils og sam­herji í stórum prinsipp­málum.“ 

Næstu skref verði að fara fram á að kosið verði aftur í nefndir Al­þingis. „Fyrst og fremst munum við þó hefja saman sókn og bar­áttu fyrir þeim mörgu stóru tæki­færum sem hafa verið van­rækt í ís­lenskum stjórn­málum, betri stjórn­málum og betra sam­fé­lagi. 

Ég treysti því að flokks­menn taki vel á móti Ólafi og Karli Gauta og sýni þeim og öðrum sem síðar kunna að ganga til liðs við okkur að Mið­flokkurinn sé í senn ein­stak­lega góður hópur sam­herja og vina og afl sem getur leitt mikils­verðar fram­farir fyrir Ís­lendinga.“