Miðflokksmenn vilja hemja útgjöld til málefna útlendinga.

Þeir segja innflytjendamál á Íslandi einkennast af vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka. Málsmeðferð hafi reynst þung í vöfum og afgreiðslutími umsókna sé of langur og kostnaðarsamur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður og þingmaður Miðflokksins, leggur til að Alþingi breyti útlendingalögum með það að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málefna útlendinga og auka skilvirkni í málsmeðferð.

„Áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða,“ segir í tillögunni en Sigmundur Davíð og flokksbróðir hans, Bergþór Ólason, leggja til að Jón Gunnarsson, nýskipaður innanríkisráðherra, flytji frumvarp um þessa breytingu á næsta ári.

Með tillögunni fylgir rúm 3200 orða greinargerð um málefni flóttamanna, innflytjendur í Evrópu, Dyflinnarsamkomulagið og samþykktar umsóknir hér á landi borið saman við Danmörku og Noreg.

Sigmundur Davíð segir að tilhæfulausum umsóknum ákveðinna hælisleitenda sé sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikar eru mestir.

„Úr verður skaðleg keðjuverkun, ekki síst fyrir þá sem þurfa mest á hjálp að halda,“ skrifar Sigmjundur Davíð sem telur nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum ella haldi áfram keðjuverkun sem 350 þúsund manna ríki ráði ekki við.