Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti mikilli furðu yfir frumvarpi heilbrigðisráðherra um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta af vímuefnum þegar málið var tekið á dagskrá Alþingis í dag.

Með frumvarpinu er lagt til að hætt verði að beita refsingum fyrir vörslu neysluskammta þeirra vímuefna sem ólögleg eru, en sala þeirra og innflutningur verði áfram ólögleg.

Fólk forðist það sem er ólöglegt

„Við erum nú reiðubúinn til að ganga gegn því sem teljast almenn mannréttindi vegna þess að það er talið nauðsynlegt í baráttu við faraldur en á sama tíma leggur ríkisstjórnin nú til að annar faraldur og ekki síður hættulegur verði sérstaklega lögleiddur, leggur til lögleiðingu fíkniefna,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni.

Hann sagði ríkisstjórnina stunda nýaldarstjórnmál og fara að dæmi Orwells og leita nýrra orða yfir hlutina. Hann tók sem dæmi hugtakið afglæpavæðing um lögleiðingu vímuefna og gagnrýndi einnig notkun hugtaksins mannúð í frumvarpinu. Lögreglan hafi hins vegar bent á mikilvægi þess að „hafa þennan möguleika á að grípa inn í einmitt til að aðstoða fólk og sýna mannúð.

Þá sagði Sigmundur fælingarmátt felast í refsilöggjöfinni og ástæða þess að eitthvað sé ólöglegt sé gjarnan ástæða þess að fólk forðist það.

„Ekki hvað síst í tilviki fíkniefnaneyslu þar sem útskýrt er fyrir börnum og fullorðnum líka að það sé ólöglegt að neyta fíkniefna,“ sagði Sigmundur og bætti við:

„Ég hef aldrei séð eiturlyf, herra forseti, eða þeirrar neytt vegna þess að þau hafa verið ólögleg og menn hafa ekki verið að flíka þeim.“

„Ég hef aldrei séð eiturlyf, herra forseti, eða þeirrar neytt vegna þess að þau hafa verið ólögleg og menn hafa ekki verið að flíka þeim.“

Hann sagði að nú megi búast við því að fólk mæti óhrætt með sína neysluskammta í bekkjarpartíin og önnur samkvæmi „þar sem freistingin verður væntanlega mikil fyrir aðra að prófa, fólk sem ella hefðu ekki komist í kynni við þessi eiturlyf.“

Þá sér Sigmundur fyrir sér að verði frumvarpið að lögum geti lögregla tekið áfengi af ára ungmenni en megi ekki taka kókaín af sama ungmenni.

Furðar sig á Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum

Sigmundur vakti athygli á því að um stjórnarfrumvarp sé að ræða, frumvarp stjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sjálfstæðisflokkurinn hafi í eina tíð skilgreint sig sem flokk laga og reglu og Framsóknarflokkurinn hafi boðað fíkniefnalaust Ísland árið 2000.

„Munu þessir flokkar fallast á þetta furðuverk sem hér birtist okkur?“ spurði Sigmundur í ræðu sinni.

Segir fullyrðingar Sigmundar ekki á rökum reistar

Heilbrigðisráðherra svaraði ræðu Sigmundar og sagði málið vel þola góða umræðu þótt hún væri ósammála þingmanninum.

„Ég held að þetta þoli það alveg vegna þess að þetta nefnilega snýst um líf og dauða. Þetta snýst um heilsu og þetta snýst um alvöru lífsins fyrir mjög skilgreindan hóp sem verið er að nálgast á nýjan hátt með þessu frumvarpi,“ sagði Svandís og hvatti Sigmund til að taka þátt í umræðunni.

Hún sagði fullyrðingar Sigmundar hins vegar ekki á rökum reistar. Rannsóknir sýni að aðgengi haldist óbreytt í samfélaginu þrátt fyrir svona breytingu, ef salan sé eftir sem áður ólögleg.

„Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að það er ekki beint orsakasamhengi á milli afglæpavæðingu neysluskammta til eigin nota og aukningar á nýgengi notkunar ávana- og fíkniefna í samfélaginu, þannig að fullyrðingar háttvirts þingmanns um annað eru ekki á rökum reistar,“ sagði ráðherra.

Furðu lostinn yfir hugmyndum Sigmundar um mannúð

Meðal annarra sem fóru í andsvör við Sigmund var Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata og hann gerði skilning Sigmundar á hugtakinu mannúð að umtalsefni:

„Virðulegi forseti, ég á varla orð.“

„Virðulegi forseti, ég á varla orð. Háttvirtur þingmaður stendur hér í pontu og ver það sé í refsilöggjöf; viðbrögð samfélagsins við vímuefnaneyslu og vandræðum fólks sem á við hana að etja, og ætlar að kalla það mannúð.“

Fréttablaðið/ERNIR.

Þá staldraði Helgi hrafn við þá fullyrðingu Sigmundar að hann hafi aldrei séð eiturlyf.

„Ég ætla að viðurkenna það hér að ég hef séð vímuefni og ég hef verið viðstaddur þar sem fólk hefur farið sér að voða og verið vitni að því að fólk veigri sér þá við því að leita sér hjálpar af ótta við lögregluna,“ sagði Helgi Hrafn. Hann sagði persónulega reynslu gagnlega í samfélagslegri umræðu um málaflokkinn.

„Það er fullt af fólki í þessu samfélagi sem hefur meira vit á vímuefnamálum vegna persónulegrar reynslu heldur en háttvirtir þingmenn Miðflokksins sem tala svona eins og það sé göfugt að hafa ekkert vit á málaflokknum,“ sagði Helgi Hrafn.

„Það er fullt af fólki í þessu samfélagi sem hefur meira vit á vímuefnamálum vegna persónulegrar reynslu heldur en háttvirtir þingmenn Miðflokksins.“

Fjölmargir þingmenn hafa tekið til máls um frumvarpið og má ætla að umræðan standi fram á kvöld.