Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, segir í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í dag að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sé ekki að reyna að rannsaka brot á lögum, heldur hefna sín á sér persónulega. Sigmundur segir að Steingrímur láti lög og rétt víkja í þessum tilgangi.

Sigmundur er að vísa í þá ákvörðun að kjósa nýja forsætisnefnd sem verður skipuð þingmönnum til að koma Klaustursmálinu í farveg og jafnvel vísa því til siðanefndar. Þessir þingmenn verða að vera óumdeilanlega hæfir og mega ekki hafa tjáð sig um málið opinberlega. Steingrímur sagði í viðtali við RÚV að nefndin yrði útbúin að honum í samráði við formenn þinflokka.

Sigmundur segir að Steingrímur sé að brjóta blað í sögu Alþingis með því að skipa þessa nýju forsætisnefnd til að fjalla um Klaustursmálið, sem Sigmundur vill frekar kalla „hlerunarmálið.“ Hann segir að Steingrímur sé að „breyta lög­um og beita svo hinum nýju lög­um sín­um aft­ur­virkt til að ná fyr­ir fram ákveðinni niður­stöðu.“

Sigmundur segir að þetta stangist á við lög um þingsköp og telur að Steingrímur sé ekki heppilegur forseti Alþingis, sem sjáist á því að nú sé hann að nýta stöðu sína til að hefna sín á Sigmundi.

Sigmundur segir að ekkert af því sem hann hafi sagt á Klaustri jafnist á við fjölmargt sem þingforsetinn sjálfur hafi sagt og gert opinberlega. Hann segir að Steingrímur hafi notið sviðsljóssins þegar hann baðst afsökunar fyrir hönd þingsins á tali þingmanna í Klaustursupptökunum, en að Steingrímur hefði frekar átt að byrja á „að biðjast afsökunar á því sem hann hafði sjálfur stöðu og tilefni til", eins og orðfæri sínu í gegnum tíðina, að leggja hendur á ráðherra í þingsal og reyna svo að koma sama manni í fangelsi og ýmsu öðru.